Gunnar Bragi Sveins­son, vara­for­maður Mið­flokksins og þing­flokks­for­maður, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að til­kynning Vig­dísar Hauks­dóttur um fram­boð sitt til vara­for­manns flokksins hafi komið sér á ó­vart. Hann segist velta vöngum yfir því hvort það fari saman að gegna bæði em­bætti vara­for­manns og þing­flokks­for­manns og segist í­huga stöðu sína.

Líkt og Frétta­blaðið greindi frá fyrr í dag til­kynnti Vig­dís að hún hefði á­kveðið að bjóða sig fram til em­bættisins. Sagðist hún hafa fengið hvatningu frá flokks­mönnum víða að á landinu. Hún mæti það svo að hún gæti ekki skorast undan þeirri á­byrgð.

„Þetta kom mér að­eins á ó­vart að sjá þetta í fjöl­miðlum. En það á enginn neitt í stjórn­málum. Við Vig­dís þekkjum það bæði, enda komum við bæði úr flokki sem klofnaði venga innan­flokks­á­taka. Það er hins vegar búið að vera mjög gaman í Mið­flokknum, mikil sam­heldni í flokknum og gengið mjög vel,“ segir Gunnar.

„En ég hef reyndar sagt opin­ber­lega að það sé ó­þægi­legt að vera bæði vara­for­maður og þing­flokks­for­maður. Þetta eru tvö em­bætti sem er ekki endi­lega sniðugt að sami maður gegni. Þannig svar mitt er núna kannski fyrst og fremst að ég þurfi að velja, hvort ég vilji vera á­fram vara­for­maður eða þing­flokks­for­maður.“