Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra segist vilja koma umhverfismálum betur að í öðrum málaflokkum Vinstri grænna.

Guðmundur tilkynnti í fyrradag að hann gæfi kost á sér í embætti varaformanns. Hann segir að aðrir málaflokkar muni ekki líða fyrir áherslu hans á umhverfismál, þvert á móti telur hann það bestu leiðina til að brjóta niður ósýnilega múra milli málaflokka.

Guðmundur segir eðlilegt framhald að bjóða sig fram til Alþingis en hann hafi þó ekki ákveðið hvar það yrði.

Hvers vegna gefur þú kost á þér núna?

„Ég hef áhuga á því að starfa áfram á þessum vettvangi og tel mikilvægt að rödd umhverfis- og náttúruverndar heyrist enn betur. Ég held að ein leiðin til þess sé að gefa kost á sér til forystu í stjórnmálaflokki,“ segir Guðmundur Ingi í samtali við Fréttablaðið.

Munu aðrir málaflokkar líða fyrir áherslu þína á umhverfismál?

„Umhverfismál eru svo þverfagleg og tengjast svo óskaplega mörgum öðrum málaflokkum. Ég lít miklu frekar á þetta sem tækifæri til að koma þeim betur að í öðrum málaflokkum. Við þurfum að brjóta niður ímyndaða múra á milli mála.“

Ætlar þú í framboð til Alþingis?

„Þetta er allavega fyrsta skrefið. Mér finnst það svo sem eðlilegt framhald að gera það en ég hef ekkert ákveðið hvar það yrði en neitt slíkt. Ég tek þetta eitt skref í einu,“ segir Guðmundur.

Guðmundur Ingi tók við embætti umhverfis- og auðlindaráðherra 30. nóvember 2017 sem utanþingsráðherra. Hann var framkvæmdastjóri Landverndar 2011-2017 og tók því ekki þátt í stjórnmálastarfi hreyfingarinnar á þeim tíma. Hann hefur aldrei verið í fram­boði til Alþingis.

Er ekki eðlilegra að fá einstakling sem hefur meiri reynslu og þekkingu á starfi hreyfingarinnar í embættið?

„Ég er reyndar stofnfélagi í VG og hef verið í hreyfingunni síðan hún var stofnuð og vann sem kosningastjóri í alla vega einum kosningum. Ég hef tekið þannig virkan þátt í starfinu þó að á síðustu árum, áður en ég varð ráðherra, þá var ég ekki í því.“