Berglind Rós Magnúsdóttir hefur rannsakað marga ólíka anga ástarinnar. Í nýjustu rannsókn sinni talaði hún við fimmtán fráskildar framakonur um leit þeirra að nýrri ást eða sambandi og hvernig markaðurinn hefur breyst og þarfir þeirra. Hún segir markaðinn opnari en áður, minna traust og margar mótsagnir á markaði ástarinnar.

Þessi vettvangur er lítt rannsakaður á Íslandi og ég er, ásamt fleirum, að byggja upp rannsóknarvettvang þvert á svið hug- og félagsvísinda. Ástin er þannig fyrirbæri að það er ekki hægt að finna henni farveg á einhverju einu sviði,“ segir Berglind Rós Magnúsdóttir, formaður Hins íslenzka ástarrannsóknafélags, en hún er uppeldis- og menntunarfræðingur að mennt og hefur rannsakað umhyggju, vina- og foreldratengsl, en átti alltaf rómantísku ástartengslin eftir, að eigin sögn.

Berglind segir að þó svo að það sé iðulega talað um ástina aðeins í tengslum við maka, vini, fjölskyldu og foreldra, þá sé fólk miklu oftar ástarveitur, til dæmis í vinnu eða í tómstundastarfi.

„Þetta er drifið okkar,“ segir Berglind Rós ákveðin.

Hún segir að forsaga þess að hún hóf þessar rannsóknir sé sú að árið 2015 hafi Anna Guðrún Jónasdóttir verið gerð að heiðursdoktor í stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og hún velti því fyrir sér af hverju hún hefði ekki fengið meiri athygli fyrir skrif sín á Íslandi.

„Hún þróaði hugtakið ástarkraft, sem ég hef til dæmis fjallað um í viðtölum og í pistlum í Lestinni á RÚV,“ segir Berglind Rós, og að hugtakið byggi á kenningum Marx um vinnu og arðrán vinnukrafts.

„Hún segir að þessi hugtök Marx séu frábær greiningartæki, en þau nái ekki utan um þann hluta lífskraftsins sem varðar ástartengslin og alla þá orku sem fer í umhyggju og ástartengsl,“ segir Berglind og að það megi sjá á því, til dæmis, að umönnunarstörf eru ekki, eða illa, launuð.

„Það er frekar nýtilkomið að skilgreina umhyggju sem starf og sýnir vel hversu blind við vorum áður á það sem kallast ástarkraftur, hvernig hann er nýttur og að hann er ekki óendanleg auðlind,“ segir Berglind Rós og að þetta geti skýrt beint og óbeint hversu margir eru í kulnun núna, því umhyggjuþáttur margra starfa hafi blásið út og sítengingin mái út skilin milli vinnu og einkalífs.

Konurnar vilja að samböndin séu ólík hversdeginum.

Kunnum ekki að setja mörk

„Við kunnum ekki að setja mörk fyrir ástarkraftinum. Við getum sett mörk um hvenær við hættum að vinna en svo spreðum við ástarkraftinum án þess að spá meira í því og hvort við séum í samskiptum sem eru ójöfn hvað þetta varðar,“ segir Berglind. Þetta hafi að miklu leyti verið drifkrafturinn í rannsóknum Önnu Guðrúnar og að það hafi ekki verið hægt að skilgreina kynjamisrétti í samfélaginu út frá því að konur hafi ólík eða minni réttindi en karlmenn, en að eitthvað hafi verið óútskýrt sem gæti varpað ljósi á augljóst misrétti.

„Þannig nýtti hún hugtakið ástarkraftur til að útskýra að konur séu að jafnaði að veita meira af honum í ástarsamböndum, inni á heimilinu og í störfum sínum, og þannig er meiri hætta á að þær brenni út.“

Í mánuðinum kom út grein sem fjallar um nýjustu rannsóknir hennar, en það eru djúpviðtöl við fimmtán fráskildar framakonur sem hafa skilið við langtímamaka og eru að reyna að fóta sig í breyttum heimi og sítengdum veruleika tilhugalífsins.

„Það er áhugavert að skoða þær konur sem samkvæmt flestum árangursmælikvörðum standa sterkt. Eru fjárhagslega sjálfstæðar og hafa þannig getu til að fara inn í jafningjasamband. Þær geta yfirgefið sambönd vegna þess að þær eru fjárhagslega og félagslega sjálfstæðar. Þær eru ögrandi, því þær hafa vald. Kynjakerfið gerir ráð fyrir því að konur verði ástfangnar af jafningjum sínum eða einhverjum sem eru eldri eða ofar í stigveldinu. Þetta er hins vegar að breytast og þær hafa fæstar áhuga á eldri mönnum, en hins vegar virðast þær opnari fyrir yngri mönnum, ekki síst vegna þess að þeir eru allajafna jafnréttissinnaðri og tilfinningalega opnari að þeirra mati.“

Kynjakerfið gerir ráð fyrir því að konur verði ástfangnar af jafningjum sínum eða einhverjum sem eru eldri eða ofar í stigveldinu. Þetta er hins vegar að breytast.

Skekkja á markaði

Berglind segir ákveðna skekkju svo á markaðnum, sem er þegar lítill, því að „framakarlarnir“ á sama aldri séu margir að reyna að ná sér í yngri konur þegar þeir koma aftur á markaðinn, en karlar sem séu yngri en þær séu miklu opnari fyrir öllum aldri.

„Þær hafa allar upplifað talsverð vonbrigði á þessum vettvangi og lært að verja sig ástararðráni,“ segir Berglind og segir að þær geri það, til dæmis, með því að auka hæfni sína í að aðgreina milli kynlífs og ástar og að taka ekki upp sambúð. Hún segir að stöðunni á markaðinum megi lýsa með einu orði og það sé „regluslökun“, sem birtist meðal annars í stöðugum breytingum á sambandssamningum, sem skapi ákveðið óöryggi, en um leið frelsi til að skilgreina tilfinningar sínar upp á nýtt.

„Fólk er stöðugt að þreifa sig áfram í samningaleit, eins og í atvinnuviðtali eða í þarfagreiningu.“

Hún segir að þetta hafi aukist sérstaklega með tilkomu forrita eins og Tinder, á meðan áður hafi fólk hist og komist að því saman hvort það ætti saman og svo skildu leiðir.

„Það sem er augljóst er að frádræg tengsl eru orðin norm. Það þýðir að þú ferð inn í einhver tengsl, en þú gerir óbeint ráð fyrir því að þeim ljúki. Traustið á því að eitthvað vari, það hefur minnkað gríðarlega. Það er kannski ekki skrítið ef litið er til skilnaðartíðni og lengdar sambanda. Tölfræðilega er landslagið breytt og þessar framakonur eru fráskildar og þar af leiðandi ekki barnungar og upplifa þessar breytingar á markaðnum frá því að þær hófu síðasta samband og þar til nú. Það var ekki einu sinni til farsími þegar þær voru um tvítugt, tæki sem gegnir nú gríðarlegu hlutverki í tilhugalífinu. Allt þetta sjónræna og textasmíðin og markaðssetningin. Markaðsvæðing ástarinnar hefur magnast gífurlega.“

Berglind Rós segir að viðmiðin séu á öllum sviðum ástarinnar orðin ólík því sem þau voru. Bæði hjá þeim sem eru einhleyp og í leit, en líka fyrir þau sem eru í sambandi, því skilnaðartíðni hafi aukist og það sé samhliða breyttum gildum í samfélaginu.

„Það skildi enginn fyrir 40 til 50 árum nema það væri aðkallandi og skýr ástæða fyrir því, eins og alkóhólismi eða ofbeldi eða svik. En núna er einfaldlega nóg að missa áhugann eða einfaldlega lýsa breyttum tilfinningum eða þörfum,“ segir Berglind.

Fréttablaðið/Valli

Margar mótsagnir á markaði

Hún segir að í þessu séu svo margar mótsagnir, því að þegar fólk er svo komið aftur á markaðinn, sem er svo opinn og fjölbreyttur, þá sé svo erfitt, þrátt fyrir allt framboðið, sítenginguna og sýnileikann, að finna nánd og sterkar tilfinningar.

„Sem þú hrífst af og verður ástfangin af. Það þarf svo margt að fara saman svo það myndist einhver harmónía hjá fólki. Þetta eru jafnframt kröfuharðar konur sem sætta sig ekki við hvað sem er,“ segir Berglind, en að þetta sé á sama tíma í mótstöðu við þá kröfu sem við höfum, um að ástarjátning feli í sér að maður hafi sérstöðu.

Þetta eru jafnframt kröfuharðar konur sem sætta sig ekki við hvað sem er

„Við viljum vera sérstök og að viðkomandi verði ástfanginn af okkur því við erum svo sérstök, en svo á sama tíma segjum við að það sé svo auðvelt að finna einhvern nýjan og verða ástfangin. Hver er þá sérstaðan?“

Ástin ekki í hversdeginum

Berglind segir að hún hafi séð það hjá framakonunum að þær hafi reynt eftir fremsta megni að aðgreina ástina frá hversdeginum.

„Konurnar eru flestar með börn, í krefjandi starfi og vilja fá smá krydd. Fara í ferðalög, njóta fría og augnablika og þær vilja ekkert endilega blanda lífinu með nýja makanum og börnunum saman, eða hversdeginum. Rómantíska ástin er upphafin og hversdagurinn er þannig andstaða við hana,“ segir Berglind og að þetta sé dæmi um nýja gerð af samningum í ástinni, þar sem það er vel skilgreint hvar og hvenær fólk hittist og við hvaða aðstæður.

„Það er skýrt og stýrt skipulag, alltaf gaman og alltaf þegar þeim hentar,“ segir Berglind.

Hún segir að afleiðingarnar af óöryggi á markaði ástarinnar séu að konurnar leggi meiri áherslu á vinatengsl og tengsl við börn sín, og svo annars konar samninga með fyrirvörum og skilyrðum, og segir að í samræmi við það sé það algengara að fólk gangi inn í svokölluð tímabönd [e. situationship] þar sem fólk ákveður að vera saman í afmarkaðan tíma, þar til annar fer, eða einhverju tímabili lýkur.

„Þær eru í aðstöðu til að setja fram þessar kröfur,“ segir Berglind og að konurnar séu meðvitaðar um að þær séu ekki endilega í leit að sálufélaga og að þessi nýi maki eða félagi sem þær leita að, þurfi ekki að uppfylla allar þeirra kröfur. Þær eigi vinkonur, ættingja og börn sem uppfylli stóran hluta þeirra. Rómansinn og kynlífið er því í forgrunni í hinum nýju samböndum og á þeirra forsendum. Þær eru mun meiri gerendur í að móta líf sitt, bæði einka- og vinnulíf, en jafnöldrur þeirra fyrir 30 árum, þegar Anna Guðrún þróaði hugmyndina um ástarkraftinn.

„Hin skýru skilyrði koma þó líka til af því að þeim líður eins og þær hafi gengið á ástarkrafta sína í fyrri samböndum og til lengri tíma fengið of lítið til baka,“ þannig að þær eru með varann á sér, segir Berglind. Eins séu þær enn að veita börnunum sínum svo mikið af þessum krafti og forgangsraði þeim framar, því þær finni að hann sé ekki ótakmarkaður á þessum tímapunkti í lífi þeirra.