Tveir svellkaldir gluggaþvottamenn hafa unnið við að hreinsa glerturninn við Höfðatorg á mótum Borgartúns og Katrínartúns undanfarna daga. Ekki vildu þeir gera mikið úr vinnu sinnu og báðust undan viðtali en leyfðu myndatökur góðfúslega. Þeir sögðu veðrið í gær vera langleiðina í fullkomið, lítinn vind, skýjafar og ekki of hlýtt. Þeir bættu við að ekki væri alslæmt að vinna í rigningu og reyndar ynnu þeir í flestum veðrum.

Það krefst nokkurrar sérhæfingar að hanga í línu utan á háhýsum og allur öryggisbúnaður verður að vera fullkominn, enda er ekkert rúm gefið fyrir slys. Þeir félagar vinna hvor um sig í tvöfaldri línu með sjálfvirku bremsukerfi ef eitthvað gefur sig. Þegar menn eru sáttir við að búnaður sé rétt settur upp er ekkert annað að gera en að drafa andann djúpt og leggja af stað.

Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari