Emmanuel Macron, Frakk­lands­for­seti, kallaði Boris John­son „trúð“ í einka­sam­tali, sam­kvæmt fréttum frá Frakk­landi.

Að sögn pólitíska tíma­ritsins Le Canard enchaîné sagði Macron að breski for­sætis­ráð­herrann hegðaði sér eins og ruddi. Um­mæli Macrons komu í kjöl­far þess að leið­togarnir tveir ræddu saman í síma eftir að bátur með flótta­mönnum sökk í Ermar­sundi á mið­viku­dag.

Macron var síður en svo sáttur við John­son eftir að sá síðar­nefndi tísti bréfi með á­ætlun í fimm skrefum sem ætlað er að takast á við málið í Ermar­sundi. Macron lýsti sam­skiptum sínum við breska for­sætis­ráð­herrann á blaða­manna­fundi á föstu­dag eftir að tísti hafði birst.

„Ég ræddi við John­son for­sætis­ráð­herra fyrir tveimur dögum á al­var­legum nótum. Fyrir mitt leyti mun ég halda á­fram að gera svo, rétt eins og ég geri við öll lönd og alla leið­toga. Það kemur mér á ó­vart þegar þeir eru ekki al­var­legir. Við ræðum ekki saman um þessi mál, einn leið­togi við annan, með tístum og bréfum sem við birtum opin­ber­lega,“ sagði Macron.

Alltaf sami sirkusinn

Að sögn tíma­ritsins voru orð for­setans þó enn af­dráttar­lausri í einka­sam­talinu en að sögn þeirra var Macron mjög ó­sáttur með sam­skiptin við Macron og því að hann skyldi hafa opin­berað á­ætlun þjóðar­leið­toganna á Twitter. Lýsti hann þeim sem „sama sirkusnum alltaf hreint“.

Þá er Macron sagður hafa greint að­stoðar­mönnum sínum að John­son hafi beðið hann af­sökunar eins­lega á því að kenna Frakk­landi um flótta­manna­málin í Ermar­sundi.

„Það er sorg­legt að sjá stórt land sem við gætum gert fjöl­marga hluti með vera leitt af trúði,“ er haft eftir Macron.

Um­mælin koma í kjöl­far þess að fyrrum sendi­herra Frakk­lands í Bret­landi, Syl­vi­e Ber­mann, sagði í út­varps­við­tali að sam­skipti á milli Frakk­lands og Bret­land hafi „ekki verið verri síðan Wa­ter­loo“.

Frakk­lands­for­seti er sagður hafa kennt slæmu við­horfi John­son til Frakk­lands á ann­mörkum Brexit-samningsins.

„Brexit er upp­hafs­punktur John­son sirkusins,“ sagði Macron. „Hann áttaði sig mjög snemma á því að á­standið væri hörmu­legt fyrir Breta. Það var ekkert bensín í dælunum, það var skortur á fjöl­mörgum vörum. Hann er búinn að mála sjálfan sig upp sem fórnar­lambið og kennir Frakk­landi um.“