Fessenheim, elsta kjarnorkuveri Frakklands, var lokað á mánudag og til stendur að loka tólf verum til viðbótar. Verið er staðsett við landamæri Þýskalands og var tekið í notkun árið 1977. Forsetinn Francois Hollande hafði það á stefnuskrá sinni að loka Fessenheim, en það var núverandi forseti, Emmanuel Macron, sem tók í gikkinn.

Frakkland er sú þjóð í heiminum sem notar hlutfallslega langmest af kjarnorku. Rúmlega 70 prósent af heildarraforkunni kemur úr tvenns konar kjarnorkuverum. Til samanburðar fá Bandaríkjamenn og Rússar tæplega 20 prósent af sinni raforku frá kjarnorkuverum, Bretar 15 prósent, Þjóðverjar 10 og Kínverjar 5. Eftir lokun Fessenheim eru enn eftir 74 ver í Frakklandi.

Stefna á að koma hlutfallinu niður í 50 prósent

Stefna ríkisstjórnarinnar er að koma hlutfallinu niður í 50 prósent á næstu 15 árum. Eiga endurnýjanlegir orkugjafar að brúa þetta 20 prósenta bil. Þau tólf kjarnorkuver sem stendur til að loka á komandi árum, eru öll komin yfir, eða að nálgast, fjörutíu ára notkun.

Umhverfisverndarsinnar fagna lokuninni, en þeir hafa haft horn í síðu versins um áratuga skeið. Hafa þeir meðal annars haft áhyggjur af staðsetningunni, með tilliti til sögu jarðskjálftavirkni á svæðinu. Einnig þá hættu að flætt gæti inn í verið. Öryggismál í verinu voru tekin til endurskoðunar eftir kjarnorkuslysið í Fukushima í Japan árið 2011, en þrátt fyrir það hafa öryggisbrestir orðið síðan þá. Meðal annars þurfti að loka verinu tímabundið árið 2014 eftir að kælitankar flæddu yfir.

Að loka kjarnorkuveri er hins vegar ekki eins og að taka ristavél úr sambandi. Byrjað var að slökkva á kjarnaofnunum fyrir fjórum mánuðum síðan, en á mánudag var verið alfarið tekið úr sambandi við dreifikerfið. Kælingin mun taka nokkra mánuði til viðbótar, og þá fyrst verður hægt að fjarlægja þær geislavirku málmstengur sem orkan er unnin úr. Áætlað er að þetta klárist árið 2023, en rif versins sjálfs ekki fyrr en 2040.

Lokunin hefur alls áhrif á afkomu 2500 manns á svæðinu

Um eitt þúsund starfsmenn unnu í Fessenheim og aðeins tæplega 300 manns munu hafa störf við lokun versins. Lokunin hefur alls áhrif á afkomu 2500 manns á svæðinu og CGT, stærsta verkalýðsfélag landsins, hefur harmað ákvörðunina. „Þetta er sárt, það er ómannlegt það sem er að gerast,“ sendi félagið frá sér á samfélagsmiðlum. Ríkisstjórnin hefur hins vegar gefið það út að starfsmönnum Fessenheim muni bjóðast störf hjá öðrum raforkuverum landsins.

Óvíst er hvað verður reist á staðnum í staðinn fyrir kjarnorkuverið, en rætt hefur verið um að koma þar upp endurvinnslustöð fyrir geislavirka málma eða gas og jarðgerðarstöð. Myndi það skapa hundruð starfa og létta áfallið fyrir atvinnulífið á svæðinu.