„Nú lifum við á mikilvægri stundu, á þeirri gleðistundu er við getum snúið aftur til eðlilegra lifnaðarhátta.“ Þetta sagði Jean Castex, forsætisráðherra Frakklands, er hann tilkynnti að grímuskyldu verði aflétt utandyra í landinu á fimmtudaginn. „Heilsuástandið í landinu okkar er að batna fljótar en við höfðum þorað að vona,“ sagði Castex í tilkynningunni. Lagði hann áherslu á að ákvörðunin væri tekin í samráði við lýðheilsunefnd ríkisins.

Fjöldi þeirra sem eru í alvarlegu ástandi vegna Covid-19 í Frakklandi fór niður fyrir 2.000 á þriðjudag í fyrsta sinn síðan í október, að því er kemur fram í frétt Le Parisien. Alls hafa dagleg smit jafnframt farið niður fyrir 5.000, sem var skilyrði sem Emmanuel Macron Frakklandsforseti hafði sett fyrir mögulegum tilslökunum í fyrra.

Enn er þó of snemmt fyrir Frakka að fleygja grímunum í ruslið þar sem enn mun gilda grímuskylda við tilteknar aðstæður. Ætlast er til þess að Frakkar setji upp grímuna þegar þeir bíða í röð, nýta sér almenningssamgöngur eða safnast saman á öðrum almenningsstöðum.

Auk tilslakana á grímuskyldu verður útgöngubanni í landinu aflétt á sunnudaginn. Útgöngubannið sem er nú við lýði í Frakklandi gildir frá klukkan ellefu að kvöldi til klukkan sex að morgni. Áður hafði verið áætlað að útgöngubanninu lyki tíu dögum síðar, þann 30. júní. Undanfarið hefur borið sífellt meira á að Frakkar brjóti gegn útgöngubanninu, til dæmis þegar stórir hópar komu saman á mánudaginn til að fagna sigri Frakka gegn Þjóðverjum í lokaleik fyrstu umferðar Evrópumótsins í knattspyrnu.