Frá og með næstkomandi föstudegi tekur gildi tæplega fimm vikna útgöngubann í Frakklandi. Emmanuel Macron, forseti Frakklands tilkynnti um hertar aðgerðir í landinu fyrr í kvöld. BBC greinir frá.

Frakkar fá ekki að yfirgefa heimili sín nema af nauðsyn, t.d. vegna vinnu eða til að fara til læknis.

Skólar verða áfram opnir en ferðalög á milli svæða í landinu verða nú bönnuð. Barir og veitingastaður munu loka sem og öll fyrirtæki sem teljast ekki nauðsynlega þurfa að vera opin.

Aðgerðirnar verða næst endurskoðaðar þann 1. desember.

Í gær greindust alls 33 þúsund ný smit í landinu.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands tilkynnti um hertar aðgerðir í landinu fyrr í kvöld.
Fréttblaðið/ Getty images.

Þjóðverjar herða einnig á sóttvarnaaðgerðum

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, tilkynnti í dag um hertar aðgerðir til að hefta útbreiðslu faraldursins þar í landi. Tæplega fimmtán þúsund smit greindust í landinu síðasta sólarhring sem er metfjöldi smita. 

Aðgerðirnar í Þýskalandi fela í sér að veitingastöðum, börum og fjölda verslana verður lokað næsta mánuðinn. Stórum viðburðum verður áfram frestað og fólk er hvatt til að ferðast ekki að óþörfu. Allir sem geta unnið heima eru hvattir til að gera það. Skólar og leikskólar verða þó áfram opnir. Samkomubann fyrir utan skóla miðast við tíu manns.