Franska ríkisstjórnin setti í nótt á útgöngubann sem mun ná yfir tvo þriðju hluta íbúa Frakklands. Íbúar landsins þurfa að halda til heima hjá sér frá klukkan níu á kvöldin til sex á morgnana.

Útgöngubannið var upphaflega sett á París og átta aðrar borgir fyrir um viku, en nú munu 46 milljónir sæta útgöngubanni næstu sex vikur.

Hertar aðgerðir Frakka koma í framhaldi af mikilli uppsveiflu COVID-19 þar í landi en 41.622 greindust með smit á fimmtudag.

„Tölurnar eru að rísa hratt,“ segir Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands í Frakklandi. „Það er skimunarstöð beint á móti sendiráðinu hér í París og ég hef aldrei séð röðina jafnlanga og í morgun.“

Unnur segir að mikil þreyta sé komin í heilbrigðisstarfsmenn landsins, en á fimmtudag varaði Jean Castex forsætisráðherra við því að nóvembermánuður yrði gríðarlega erfiður fyrir sjúkrahúsin. Yfir tvö þúsund eru nú á gjörgæslu vegna faraldursins í Frakklandi og ná sýktir yfir helming innlagna á gjörgæslu á sumum svæðum.

„Sjúkrahúsin eru þegar komin að þolmörkum. Það er mikið um flutning á sjúklingum á milli sjúkrahúsa og það ber á skorti á sjúkraliðum og hjúkrunarfræðingum nánast alls staðar,“ segir Unnur. „Ef þetta heldur svona áfram þá verður einhvers konar neyðarástand.“

Unnur segir þó að þótt íbúar Frakklands séu orðnir þreyttir á ástandinu sýni þeir aðgerðunum skilning. „Það hefur verið lítið um mótmæli. Það voru einhver hundruð manna hérna um daginn sem telst nú ekki mikið á franskan mælikvarða.“

Samkvæmt Unni er það helst eldri kynslóðin sem þarf að tala til. „Það er menningin hérna að sitja þétt. Það erfitt að sjá fyrir sér Frakka að hittast án þess að drekka og borða,“ segir hún. „Það þarf að brýna fyrir fólki að það má hitta afa og ömmu, en þá þarf að vera með grímu og spritta sig.“