Frakkar ganga að kjörborðinu á morgun í seinni umferð frönsku forsetakosninganna og stendur valið nú, rétt eins og 2017, á milli sitjandi forsetans Emmanuels Macron og Marine Le Pen.
Flest bendir til þess að Macron muni standa uppi sem sigurvegari eins og gerðist árið 2017 þegar þau Le Pen háðu einvígi í seinni umferð forsetakosninganna. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun Le Monde er Macron með 56,5 prósenta fylgi og Le Pen 43,5 prósenta. Hún virðist því hafa saxað töluvert á forskot Frakklandsforseta frá 2017 þegar Macron fékk 66,1 prósent atkvæða á móti 33,9 prósentum Le Pen.
Le Pen, sem er lengst til hægri á pólitíska litrófinu, og Macron, sem er miðjumaður, hafa lengi eldað grátt silfur og hefur mikill hiti verið í kosningabaráttunni undanfarna daga. Le Pen kallaði Macron til að mynda yfirlætisfullan hrokagikk og forsetinn sakaði hana um lygar.

Vilja bæði lækka eftirlaunaaldur
Þeim Marine Le Pen og Emmanuel Macron greinir á í flestum meginatriðum stefnumála sinna.
Marine Le Pen vill til að mynda minnka lágmarks eftirlaunaaldur niður í sextugt fyrir fólk sem hóf störf fyrir tvítugt, afnema tekjuskatt fyrir fólk undir þrítugu og minnka virðisaukaskatt á orku í 5,5 prósent niður úr 20 prósentum. Þá vill hún hækka laun heilbrigðisstarfsfólks og kennara.
Að sögn fransks stjórnmálafræðings er flokkur Le Pen, Rassemblement national, lengra til vinstri en hann hefur nokkru sinni áður verið. „Frjáls verslun drepur plánetuna,“ sagði Le Pen nýlega í sjónvarpskappræðum við andstæðing sinn.
Í efnahagsmálum vill Emmanuel Macron stíga enn fastar til jarðar er varðar umbætur hans í framboðshagfræðinni sem hann hefur boðað undanfarin ár. Þá er eitt af helstu stefnumálum hans, sem svipar eilítið til loforða Le Pen, það að minnka lágmarkseftirlaunaaldur frá 65 árum niður í 62 ár.
„Ég vil ekki auka skatta. Ég vil ekki auka skuldir okkar, ég vil raunar byrja að borga hana til baka á næstu fimm árum. Ég vil að við vinnum meira,“ sagði Macron í kappræðum.

Gæti valdið ólgu innan ESB
Í Evrópumálum hefur Le Pen haldið því fast fram að hún hafi ekki nein leynileg plön um að draga Frakkland úr Evrópusambandinu. Andstæðingar hennar telja þó að kjör hennar myndi í besta falli leiða til aukinnar spennu innan ESB í ljósi þess að hún hefur áður sýnt andstöðu við sambandið og lýst því að hún vilji minnka framlög Frakklands til þess.
Macron er aftur á móti svarinn Evrópusinni og vill auka sjálfstæði Evrópusambandsins og færa það meira í átt að verndarstefnu er varðar verslun og viðskipti.
Í hernaðarmálum vill Le Pen minnka ábyrgðarhlutverk Frakklands í Atlantshafsbandalaginu. Andstæðingar Le Pen hafa sakað hana um of náin tengsl við Rússa en flokkur hennar fékk til að mynda lán frá rússneskum banka árið 2014 og henni var boðið í opinbera heimsókn af Vladímír Pútín Rússlandsforseta árið 2017.
Þá sakaði Macron Le Pen um að vera á launaskrá Pútíns. Le Pen hefur opinberlega fordæmt innrás Rússa í Úkraínu en þó sagt að Rússar gætu verið góðir bandamenn að stríðinu loknu.
Macron, sem áður var mjög gagnrýninn á NATO og kallaði hernaðarbandalagið „heiladautt“ árið 2019, sagði að Úkraínustríðið hafi hleypt nýju lífi í bandalagið.
Forsetinn hefur ítrekað reynt að miðla málum við Rússa með símtölum og fundum við Pútín frá því áður en Rússar réðust inn í Úkraínu og virðist hann líta á sig sem sjálfskipaðan erindreka Evrópu gagnvart Rússlandi.

Úr öskunni í eldinn
Í fyrri umferð forsetakosninganna fylgdi Jean-Luc Mélenchon, sem er lengst til vinstri á pólitíska litrófinu, fast á hæla Le Pen. Í kringum átta milljónir Frakka kusu hann og er það talið skipta sköpum hvernig stuðningsfólk hans kýs á morgun.
Sitt sýnist þó Frökkum um frambjóðendurna og einn kjósandi í borginni í Amiens var ómyrkur í máli þegar hann sagði: „Valið stendur á milli svartadauða og kóleru“.