Frakkar ganga að kjör­borðinu á morgun í seinni um­ferð frönsku for­seta­kosninganna og stendur valið nú, rétt eins og 2017, á milli sitjandi for­setans Emmanuels Macron og Marine Le Pen.

Flest bendir til þess að Macron muni standa uppi sem sigur­vegari eins og gerðist árið 2017 þegar þau Le Pen háðu ein­vígi í seinni um­ferð for­seta­kosninganna. Sam­kvæmt nýjustu skoðana­könnun Le Monde er Macron með 56,5 prósenta fylgi og Le Pen 43,5 prósenta. Hún virðist því hafa saxað tölu­vert á for­skot Frakk­lands­for­seta frá 2017 þegar Macron fékk 66,1 prósent at­kvæða á móti 33,9 prósentum Le Pen.

Le Pen, sem er lengst til hægri á pólitíska lit­rófinu, og Macron, sem er miðju­maður, hafa lengi eldað grátt silfur og hefur mikill hiti verið í kosninga­bar­áttunni undan­farna daga. Le Pen kallaði Macron til að mynda yfir­lætis­fullan hroka­gikk og for­setinn sakaði hana um lygar.

Emmanuel Macron og Marine Le Pen tókust á í sjónvarpskappræðum fyrir helgi.
Fréttablaðið/EPA

Vilja bæði lækka eftir­launa­aldur

Þeim Marine Le Pen og Emmanuel Macron greinir á í flestum megin­at­riðum stefnu­mála sinna.

Marine Le Pen vill til að mynda minnka lág­marks eftir­launa­aldur niður í sex­tugt fyrir fólk sem hóf störf fyrir tví­tugt, af­nema tekju­skatt fyrir fólk undir þrí­tugu og minnka virðis­auka­skatt á orku í 5,5 prósent niður úr 20 prósentum. Þá vill hún hækka laun heil­brigðis­starfs­fólks og kennara.

Að sögn fransks stjórn­mála­fræðings er flokkur Le Pen, Rassemblement national, lengra til vinstri en hann hefur nokkru sinni áður verið. „Frjáls verslun drepur plánetuna,“ sagði Le Pen ný­lega í sjón­varps­kapp­ræðum við and­stæðing sinn.

Í efna­hags­málum vill Emmanuel Macron stíga enn fastar til jarðar er varðar um­bætur hans í fram­boðs­hag­fræðinni sem hann hefur boðað undan­farin ár. Þá er eitt af helstu stefnu­málum hans, sem svipar ei­lítið til lof­orða Le Pen, það að minnka lág­marks­eftir­launa­aldur frá 65 árum niður í 62 ár.

„Ég vil ekki auka skatta. Ég vil ekki auka skuldir okkar, ég vil raunar byrja að borga hana til baka á næstu fimm árum. Ég vil að við vinnum meira,“ sagði Macron í kapp­ræðum.

Eldri kona gengur fram hjá auglýsingum fyrir framboð Le Pen og Macron í París.
Fréttablaðið/Getty

Gæti valdið ólgu innan ESB

Í Evrópu­málum hefur Le Pen haldið því fast fram að hún hafi ekki nein leyni­leg plön um að draga Frakk­land úr Evrópu­sam­bandinu. And­stæðingar hennar telja þó að kjör hennar myndi í besta falli leiða til aukinnar spennu innan ESB í ljósi þess að hún hefur áður sýnt and­stöðu við sam­bandið og lýst því að hún vilji minnka fram­lög Frakk­lands til þess.

Macron er aftur á móti svarinn Evrópu­sinni og vill auka sjálf­stæði Evrópu­sam­bandsins og færa það meira í átt að verndar­stefnu er varðar verslun og við­skipti.

Í hernaðar­málum vill Le Pen minnka á­byrgðar­hlut­verk Frakk­lands í At­lants­hafs­banda­laginu. And­stæðingar Le Pen hafa sakað hana um of náin tengsl við Rússa en flokkur hennar fékk til að mynda lán frá rúss­neskum banka árið 2014 og henni var boðið í opin­bera heim­sókn af Vla­dí­mír Pútín Rúss­lands­for­seta árið 2017.

Þá sakaði Macron Le Pen um að vera á launa­skrá Pútíns. Le Pen hefur opin­ber­lega for­dæmt inn­rás Rússa í Úkraínu en þó sagt að Rússar gætu verið góðir banda­menn að stríðinu loknu.

Macron, sem áður var mjög gagn­rýninn á NATO og kallaði hernaðar­banda­lagið „heila­dautt“ árið 2019, sagði að Úkraínu­stríðið hafi hleypt nýju lífi í banda­lagið.

Forsetinn hefur í­trekað reynt að miðla málum við Rússa með sím­tölum og fundum við Pútín frá því áður en Rússar réðust inn í Úkraínu og virðist hann líta á sig sem sjálf­skipaðan erind­reka Evrópu gagn­vart Rúss­landi.

Sitt sýnist hverjum um forsetaframbjóðendurna tvo.
Fréttablaðið/Getty

Úr öskunni í eldinn

Í fyrri um­ferð for­seta­kosninganna fylgdi Jean-Luc Mélenchon, sem er lengst til vinstri á pólitíska lit­rófinu, fast á hæla Le Pen. Í kringum átta milljónir Frakka kusu hann og er það talið skipta sköpum hvernig stuðnings­fólk hans kýs á morgun.

Sitt sýnist þó Frökkum um fram­bjóð­endurna og einn kjósandi í borginni í Amiens var ó­myrkur í máli þegar hann sagði: „Valið stendur á milli svarta­dauða og kól­eru“.