Sendinefnd frá Eþíópíu flaug í gær til Parísar, höfuðborgar Frakklands, til þess að afhenda þarlendum rannsakendum flugrita og upptökutæki úr stjórnklefa Boeing 737 MAX-flugvélar Ethiopian Air­lines sem hrapaði um síðustu helgi með þeim afleiðingum að öll 157 um borð fórust. Frá þessu greindi flugfélagið á Twitter í gær en Boeing hefur kyrrsett allan 737 MAX-flotann vegna slyssins, sem og vegna fyrra flugslyss Lion Air.

Franskir rannsakendur munu nú skoða gögnin en samkvæmt Deutsche­­ Welle á rannsókn að hefjast í dag. Samkvæmt BEA, stofnuninni sem heldur utan um slíkar rannsóknir í Frakklandi, gæti tekið nokkra daga að fá fyrstu niðurstöðurnar.

Bandaríkjamenn ætla að hjálpa Frökkum við rannsóknina en þrír bandarískir rannsakendur ferðuðust til Frakklands í gær í þeim tilgangi. Þrír til viðbótar eru svo við störf í Eþíópíu.

Kyrrsetningin veldur bæði Boeing tjóni og þeim flugfélögum sem hafa 737 MAX-vélar í flotanum. Þess vegna vonast Boeing til að leysa málið sem fyrst. Framleiðandinn sagðist í vikunni vera að vinna að hugbúnaðaruppfærslu fyrir flugvélarnar. Greinendur hjá Bank of America sögðust svartsýnir í gær og telja að það gæti tekið allt að hálft ár að innleiða uppfærsluna. – þea