Frönsk stjórnvöld eru búin að banna notkun á malaríulyfinu hydr­oxychlor­oqu­ine á sjúklingum sem greindust með COVID-19 sem Donald Trump hefur mælt með.

Fyrir níu dögum steig Trump fram og sagðist vera að nota hydr­oxychlor­oqu­ine til þess að koma í veg fyrir kórónaveirusmit án þess að vera smitaður af COVID-19.

Lyfið er oft notað til að vinna bug á rauðum úlfum (e. lupus) og liðagigt (e. Rheumatoid arthritis) en þjóðarleiðtogar hafa talað um að lyfið gæti reynst vel í baráttunni við COVID-19.

Í nýrri rannsókn sem var unnið af frönskum vísindamönnum í samstarfi við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina (e. WHO) kom í ljós að lyfið væri með hættulegar aukaverkanir.

Lyfjafyrirtæki í Frakklandi fá að halda áfram tilraunum með lyfið í von um að finna mótefni sem geti aðstoðað hydr­oxychlor­oqu­ine að vinna bug á COVID-19 veirunni.

Stutt er síðan bresk rannsókn sýndi fram á aukin dauðsföll af völdum notkunar á hydr­oxychlor­oqu­ine og að sjúklingar sem hefðu fengið lyfið hefðu kvartað undan hjartsláttartruflunum.

Fyrir vikið varaði WHO við notkun á lyfinu, mánuði eftir að evrópska lyfjaeftirlitið varaði við notkun á hydr­oxychlor­oqu­ine.