Frakkar munu ekki biðja Alsíringa afsökunar á framgöngu sinni í nýlendustríðinu árin 1954 til 1962 sem lauk með sjálfstæði Alsír. Þetta segir Emmanuel Macron, forseti Frakklands, og hafnar því að að franska ríkið biðjist opinberlega afsökunar eða sýni iðrun á nýlendutímanum eða stríðinu. Hins vegar muni hann taka þátt í „táknrænum athöfnum“, með það að marki að stuðla að sáttum milli landanna. Alsír var frönsk nýlenda frá 1830 til 1962.
Þetta kom fram í tilkynningu frá skrifstofu forsetans en opinber skýrsla um uppgjör Frakka við nýlendutímann í Alsír er væntanleg innan skamms. Skýrslan er unnin af sagnfræðingnum Benjamin Stora sem fenginn var til verksins af forsetanum, til að meta hvernig Frakkar hafa minnst nýlendutímans og stríðsins.
Þrátt fyrir að ætla ekki að biðja alsírsku þjóðina opinberlega afsökunar hefur Macron gengið lengra en nokkur annar leiðtogi Frakklands í að viðurkenna glæpi þjóðar sinnar á nýlendutímanum. Hann mun taka þátt í þriggja daga langri minningarathöfn á næsta ári þegar 60 ár eru liðin frá endalokum stríðsins. Hver dagur athafnarinnar er tileinkaður sérstökum hópi sem þjáðist vegna átakanna, að sögn aðstoðarfólks forsetans sem AFP-fréttastofan ræddi við.

Samskipti milli Frakklands og Alsírs hafa verið afar stirð frá stríðslokum. Löndin eru ekki sammála um hve margir féllu í átökunum og telja FLN-samtökin, sem leiddu baráttuna gegn yfirráðum Frakka, að um ein og hálf milljón hafi látið lífið en Frakkar segja að um 350 þúsund hafi fallið. Breski sagnfræðingurinn Alistair Horne áætlaði í bók um stríðið að um 700 þúsund hafi látist. Um milljón Frakka flúði Alsír í stríðinu. Talið er að um tvær milljónir Alsíringa hafi þurft að flýja heimili sín á meðan stríðinu stóð.
Ben Kiernan, sagnfræðingur við Yale-háskóla í Bandaríkjunum, hefur lýst framgöngu Frakka er þeir sölsuðu Alsír undir sig sem þjóðarmorði. Hann telur rúmlega 800 þúsund Alsíringa hafa fallið frá upphafi innrásar Frakka í Alsír árið 1830 til 1875 þegar Frakkar náðu fullum yfirráðum yfir landinu.