Frakkar munu ekki biðja Alsíringa af­sökunar á fram­göngu sinni í ný­lendu­stríðinu árin 1954 til 1962 sem lauk með sjálf­stæði Alsír. Þetta segir Emmanuel Macron, for­seti Frakk­lands, og hafnar því að að franska ríkið biðjist opin­ber­lega af­sökunar eða sýni iðrun á ný­lendu­tímanum eða stríðinu. Hins vegar muni hann taka þátt í „tákn­rænum at­höfnum“, með það að marki að stuðla að sáttum milli landanna. Alsír var frönsk ný­lenda frá 1830 til 1962.

Þetta kom fram í til­kynningu frá skrif­stofu for­setans en opin­ber skýrsla um upp­gjör Frakka við ný­lendu­tímann í Alsír er væntan­leg innan skamms. Skýrslan er unnin af sagn­fræðingnum Benja­min Stora sem fenginn var til verksins af for­setanum, til að meta hvernig Frakkar hafa minnst ný­lendu­tímans og stríðsins.

Þrátt fyrir að ætla ekki að biðja alsírsku þjóðina opin­ber­lega af­sökunar hefur Macron gengið lengra en nokkur annar leið­togi Frakk­lands í að viður­kenna glæpi þjóðar sinnar á ný­lendu­tímanum. Hann mun taka þátt í þriggja daga langri minningar­at­höfn á næsta ári þegar 60 ár eru liðin frá enda­lokum stríðsins. Hver dagur at­hafnarinnar er til­einkaður sér­stökum hópi sem þjáðist vegna á­takanna, að sögn að­stoðar­fólks for­setans sem AFP-frétta­stofan ræddi við.

Líkkistur alsírskra uppreisnarmanna sem féllu í stríðinu og lagðir voru til hinstu hvílu í fyrra.
Fréttablaðið/EPA

Sam­skipti milli Frakk­lands og Alsírs hafa verið afar stirð frá stríðs­lokum. Löndin eru ekki sam­mála um hve margir féllu í á­tökunum og telja FLN-sam­tökin, sem leiddu bar­áttuna gegn yfir­ráðum Frakka, að um ein og hálf milljón hafi látið lífið en Frakkar segja að um 350 þúsund hafi fallið. Breski sagn­fræðingurinn Alistair Horn­e á­ætlaði í bók um stríðið að um 700 þúsund hafi látist. Um milljón Frakka flúði Alsír í stríðinu. Talið er að um tvær milljónir Alsíringa hafi þurft að flýja heimili sín á meðan stríðinu stóð.

Ben Ki­ernan, sagn­fræðingur við Yale-há­skóla í Banda­ríkjunum, hefur lýst fram­göngu Frakka er þeir sölsuðu Alsír undir sig sem þjóðar­morði. Hann telur rúm­lega 800 þúsund Alsíringa hafa fallið frá upp­hafi inn­rásar Frakka í Alsír árið 1830 til 1875 þegar Frakkar náðu fullum yfir­ráðum yfir landinu.