Ríkisstjórnin kynnti í gær þríþætta áætlun um næstu skref í baráttu við kórónaveirufaraldurinn hér á landi. Farið verður í átak í bólusetningum og varnir efldar á landamærum. Frá 16. ágúst verða bólusettir farþegar með tengsl við Ísland skyldaðir í sýnatöku innan tveggja sólarhringa frá komu til landsins.

Auk íslenskra borgara og einstaklinga búsettra hér, er um að ræða fólk með atvinnuleyfi og umsækjendur um atvinnuleyfi eða alþjóðlega vernd. Ekki verður gerð krafa um sóttkví meðan niðurstöðu er beðið og verður sýnatakan gjaldfrjáls.Þá kynnti stjórnin aðgerðir til að styrkja heilbrigðiskerfið.

„Þetta snýst um að bæta möguleika á að útskrifa fólk af spítalanum, styðja við öldrunarþjónustu og við kragasjúkrahúsin sem hafa þá aftur möguleika á að styðja betur við Landspítalann. Þetta er alllangur listi af ýmsum aðgerðum, bæði innan- og utanhúss,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Meðal þess sem á að gera er að kalla heilbrigðisstarfsfólk úr sumarleyfum til að bregðast við auknum fjölda innlagna í kjölfar smita. Bak­varðasveitin hefur verið endurvakin auk þess sem sérstök sýnatökusveit verður sett á laggirnar vegna mikils álags á heilsugæsluna sem sinnir sýnatökum.

Opna sérstaka Covid-einingu

Unnið er að opnun tíu Covid-rýma á höfuðborgarsvæðinu, fjölga á gjörgæslurýmum á Landspítalanum og mögulega koma á fót sérstakri Covid-einingu á Landspítala sem myndi starfa til lengri tíma. Til að létta á álagi verður liðkað fyrir útskriftum af Landspítala með breytingu á reglugerð um færni- og heilsumat. Einnig munu Heilbrigðisstofnanir Suðurlands og Suðurnesja taka við sjúklingum frá Landspítala frá og með næstu viku. Um þrjátíu rými verður að ræða. Þá mun Heilbrigðisstofnun Vesturlands aðstoða við mönnun fagfólks.

Ríkisstjórnin fundaði lengi í gær en ráðherrar hafa bæði í þessari viku og síðustu hitt fjölbreyttan hóp sérfræðinga til mats á stöðunni í faraldrinum og í heilbrigðiskerfinu. Ráðherrar voru á einu máli um mikilvægi bólusetninga að fundi loknum.

„Það hefur komið í ljós að bólusetningar veita gríðarlega sterka vörn og bólusetningaaðgerðin hefur heppnast frábærlega. Við byggjum á þeim árangri í dag. Við sjáum varla dæmi um bólusett fólk sem veikist og engan í gjörgæslu þannig að faraldurinn er ekki sami faraldur og hjá óbólusettri þjóð. Þannig að við höfum gjörbreytt stöðunni með bólusetningunum,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.

Hann lýsir að sama skapi vonbrigðum með hve lítið viðbótarálag heilbrigðiskerfið þolir.

„Við stöndum frammi fyrir ýmsum áskorunum vegna þess að heilbrigðiskerfið okkar þolir lítið viðbótarálag og það er bæði gömul saga og ný. Við þurfum ekki að horfa langt aftur í tímann til að finna aðgerðaáætlanir sem ætlað var að létta álagi af Landspítalanum. Að því leytinu til er voða lítið nýtt í þeirri umræðu,“ segir hann.