Fáfarandi Siðanefnd Háskóla Íslands segir sig tilneydda til að rjúfa þögnina um afsögn sína vegna þeirrar fjölmiðlaumfjöllunar sem átti sér stað í kjölfarið sem og þeirra staðhæfinga sem rektor og Ásgeir Jónsson hafi haft uppi í fjölmiðlum.

Nefndin sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins í hádeginu í dag.

Í Siðanefndinni sátu þau Henry Alexander Henrysson, Sólveig Anna Bóasdóttir og Skúli Skúlason en þau segja málið „ósigur fyrir Háskóla Íslands og fræðastarf í landinu.“

Málið snýr að kæru Bergsveins Birgissonar, rithöfunds, en hann ásakaði Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóra, um ritstuld í nýjustu bók sinni Eyjan hans Ingólfs. Siðanefnd Háskóla Íslands ætlaði að taka málið til efnislegrar meðferðar.

Í febrúar var svo greint frá því að Siðanefndin hefði sagt af sér og að það hafi verið vegna afskipta Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands.

Afskipti rektors

„Það var fráfarandi nefnd mikil vonbrigði í hvaða farveg málið fór eftir afsögnina. Fréttavefur Morgunblaðsins birti til að mynda frétt skömmu síðar þar sem meðal annars komu fram upplýsingar sem Bergsveinn hafði ekki haft aðgang að. Upplýsingarnar gátu aðeins hafa komið annað hvort frá Ásgeiri eða skrifstofu rektors Háskóla Íslands.

Þær komu ekki frá fráfarandi siðanefnd. Þá tjáði rektor sig ítrekað í fjölmiðlum með yfirlýsingum sem gáfu villandi mynd af því sem gerst hafði. Ásgeir Jónsson birti svo í framhaldinu bæði greinargerð til siðanefndar (þegar hún hafði sagt af sér) og ýmsar hugleiðingar sínar um málið,“ segir meðal annars í yfirlýsingu fráfarandi Siðanefndar.

Jón Atli hefur sjálfur hafnað því að hafa haft afskipti af máli seðlabankastjóra.

Í yfirlýsingu fráfarandi nefndar segir að rektor hafi tjáð Ásgeiri, „að samkvæmt eigin skoðun sinni væri Ásgeir ekki í ráðningarsambandi við Háskóla Íslands og lyti ekki lengur stjórn eða boðvaldi hans sendi Ásgeir siðanefndinni bréf um að málinu væri sjálfhætt.“

Þarna hafi rektor tekið fram fyrir hendur siðanefndarinnar og að hún hafi ekki vitað um þessi samskipti hans við Ásgeir fyrr en eftir á. „Þetta er megininntak þess trúnaðarbrests sem setti nefndinni engan annan kost en segja af sér.“

Seðlabankastjóri í forsetastól

Fráfarandi Siðanefnd bendir á opna bréf Kára Stefánssonar um málið en hann sagði meðal annars fáranlegt af rektor að bjóða upp „á þann möguleika að fræðimenn háskólans geti skipulagt vinnu sína þannig að þeir taki sér launalaust leyfi þegar þeir ætla sér að stunda einhvern fræðilegan ósóma og komið síðan til baka úr leyfinu með hreinan skjöld af því enginn hafði heimild til þess að kanna hvort ásakanir um ósómann væru sannar eða lognar.“

Þá hafi rök Ásgeirs snúist fyrst og fremst um hlutverk hans sem seðlabankastjóra og vegna þess hafi ekki gengið upp að siðanefnd tæki málið fyrir.

„Honum virðist síður vera umhugað um óbreytta háskólaborgara. Við skulum láta hugmyndir Ásgeirs um eigið hlutverk (sem hann líkir við embætti forseta lýðveldisins) liggja milli hluta, en siðanefndin var ákveðin í að láta þær ekki hafa áhrif á sig,“ segir í yfirlýsingunni.

Hægt er að lesa yfirlýsingu þremenninganna í heild sinni á vef Vísis.