Hertoginn af Strathmore, Simon Bowes-Lyon, frændi Elísabetar Bretadrottningar, hlaut á mánudaginn tíu mánaða fangelsisdóm fyrir að áreita konu sem var gestur á ættaróðali hans í Skotlandi á síðasta ári.
Hertoginn viðurkenndi fyrir dómi að hafa veist að konunni, sem var 26 ára á þeim tíma, í febrúar á síðasta ári. Brotið átti sér stað í Glamis kastala, sem var eitt sinn æskuheimili móður Elísabetar drottningar.
Skammast sín
Fórnarlamb hertogans kveðst enn þá fá martraðir vegna árásarinnar. Umrædd árás stóð yfir í um tuttugu mínútur og á þeim tíma kom hertoginn óboðinn inn í herbergi konunnar og reyndi að afklæða hana gegn vilja hennar.
Bowes-Lyon sagði fyrir dómi að ásakanir konunnar væru sannar og að hann sæi eftir því sem átti sér stað þetta kvöld. „Ég skammast mín mikið fyrir gjörðir mínar sem ollu gesti mínum svo mikla kvöl á heimili mínu.“
Þegar réttarhöldum lauk var hertoginn leiddur út úr dómssal í járnum og færður í fangelsi.
