Á vefsíðu Menntamálastofnunar Stopp ofbeldi! geta kennarar á öllum skólastigum nálgast námsefni og annað forvarnarefni gegn ofbeldi til að hefja forvarnarfræðslu í skólum.

Í júní á síðasta ári samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni.

Á að koma á skipulögðum forvörnum gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni. Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnastýra Jafnréttisskóla Reykjavíkur, segir að innan borgarinnar eigi allir skólar að vera búnir að stofna forvarnarteymi. Hlutverk teymisins sé meðal annars að tryggja kennslu til allra árganga grunnskólans um kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og áreitni sem hæfir aldri og þroska nemenda og leitast við að tryggja samhæfð viðbrögð starfsfólks með tilliti til ólíkra hópa og ólíkra einstaklinga í tilfellum þar sem börn greina frá ofbeldi og áreitni.

Þá skal forvarnarteymið sjá til þess að fyrir hendi sé áætlun um viðbrögð þegar börn greina frá áreitni eða ofbeldi eða ef grunur vaknar um slíkt og styðja við framkvæmd slíkrar áætlunar.

„Við hjá borginni buðum upp á stutt námskeið fyrir fulltrúa allra forvarnarteyma grunnskólanna okkar til að hjálpa fólki að taka fyrstu skrefin, enda er þetta svo mikilvægt starf og því þörf á að öll viti til hvers er ætlast af þeim og séu meðvituð um þörfina á forvarnarfræðslu og forvarnarteymum,“ segir Kolbrún.