Auka þarf þekkingu heilbrigðisstarfsfólks og almennings á langvinnum verkjum, samkvæmt nýrri skýrslu heilbrigðisráðuneytisins. Langvinnir verkir hafa nú verið skilgreindir sem sjúkdómur frekar en einkenni, og er sjúkdómurinn valdur að stórum hluta örorku í landinu.

Magnús Ólason, endurhæfingarlæknir og formaður starfshópsins sem samdi skýrsluna, segir þverfaglega verkjameðferð vera bestu leiðina til að takast á við sjúkdóminn. Hún er til dæmis veitt á Reykjalundi. „Þangað fara aðeins þau sem eru með erfiðustu vandamálin. Fólk sem hefur verið verkjað lengi,“ segir Magnús.

Langvinnir verkir eru þeir sem hafa staðið yfir í að minnsta kosti þrjá mánuði, stöðugir eða í skorpum, og trufla daglegt líf. Eru þeir gjarnan tengdir stoðkerfisvandamálum og algengastir eru verkir í baki. Talið er að 56 þúsund Íslendingar, hið minnsta, glími við langvinna verki og um þriðjungur þeirra séu óvinnufær.

Að mati Magnúsar eru snemmtæk úrræði mikilvæg til að kljást við sjúkdóminn og ná fyrrnefndum tölum niður. „Þeim mun fyrr sem gripið er inn í, þeim mun líklegra er að meðferðin beri árangur og taki skemmri tíma,“ segir hann.

Dæmi um þverfaglega verkjameðferð er sú sem stunduð er á endurhæfingarstöðinni Hæfi. Þar ræða læknir, sjúkraþjálfari og sálfræðingur við sjúkling og bera saman bækur sínar um hvaða meðferð sé best að nota. Yfirleitt þarf sjúklingur bæði líkamlega og sálræna nálgun sem og fræðslu af ýmsu tagi. „Þegar verkir hafa staðið lengi yfir er yfirleitt um einhvern sálarháska að ræða,“ segir Magnús.

Magnús Ólason endurhæfingarlæknir.
Fréttablaðið/Valgarður Gíslason

Í skýrslunni er meðal annars lagt til að eitt af þeim þverfaglegu endurhæfingarteymum sem ráðherra hefur boðað í heilsugæsluumdæmunum muni einvörðungu fást við langvinna verki. Einnig að það þjónusti landsbyggðina með ráðgjöf.

Aðspurður um forvarnir segir Magnús þær bestu vera fræðslu. Almenningur þurfi að vera meðvitaður um verki og að besta leiðin til þess að fást við þá sé ekki að bryðja pillur. Einnig þurfi að efla fræðslu heilbrigðisstarfsfólks. Langvinna verki verði að hugsa í stóru samhengi og ekki aðeins líta á þann líkamspart sem verkurinn kemur fram í.

Notkun sterkra verkjalyfja, ópíóíða á borð við morfín, hefur stóraukist á undanförnum áratugum. Bent er á að notkunin hafi aukist um 20 prósent árin 2007 til 2018 og síðan 1990 hefur notkunin tuttugu og fimmfaldast. Magnús segir ópíóíða frábær verkjalyf en ekki eigi að nota þá gegn langvinnum stoðkerfisverkjum. „Það er afar sjaldan hægt að þræða þann þrönga stíg að fólk taki lága skammta sem dugi,“ segir hann. „Verkjasjúklingar verða ekki endilega fíknir í ópíóíða heldur líkamlega háðir þeim og veikjast ef þeir fá ekki lyfin.“