Lora og Eric Newman, banda­rísk hjón með fimm börn, eiga vef­síðuna icelandwit­hkids.com þar sem þau deila reynslu sinni af fjöl­skyldu­ferðum til Ís­lands.

Vef­síðan nýtur tölu­verðra vin­sælda segir Eric, sem er með ferða­hand­bók í smíðum um fjöl­skyldu­ferðir til Ís­lands.

„Þetta er sjálf­stætt verk­efni hjá okkur og ekki unnið í sam­starfi við neina ferða­þjónustu­aðila á Ís­landi,“ segir Eric en bætir við að Pro­mot­e Iceland hafi að­stoðað þau að­eins í að­draganda ferðarinnar sem þau fóru hingað árið 2016. „En að öðru leyti erum við al­farið á eigin vegum með þetta verk­efni.“

Newman-fjöl­skyldan kom fyrst til Ís­lands árið 2009, þá með þrjú börn og það fjórða á leiðinni. Eric, sem starfar fyrir lítið fjár­mála­fyrir­tæki í ná­grenni Phila­delp­hiu, átti langt sumar­frí sumarið 2016 og fjöl­skyldan á­kvað að fara í frí til Ís­lands og vinna í leiðinni að hug­myndinni um vef­síðuna sem kviknað hafði hjá þeim. Fjöl­skyldan dvaldi á Ís­landi í 12 vikur, ferðaðist í tvo mánuði og vann að vef­síðunni síðasta mánuð dvalarinnar.

Á síðunni má finna upp­lýsingar um allt frá undir­búningi fjöl­skyldu­ferðar til Ís­lands, hverju á að pakka, hve­nær best sé að heim­sækja það, á­huga­verða á­fanga­staði, hvað eigi að gera og hvað alls ekki að gera. Þar er einnig orða­banki með hag­nýtum orðum og orða­sam­böndum á ís­lensku, meðal annars orðin Ó­fært og Lokað með út­skýringunni „Ef þið sjáið skilti með þessum orðum, snúið við, Ís­lendingar nota ekki þessi orð nema þeim sé al­vara.“

Að­spurður segir Eric leið­beiningar Loru eigin­konu hans, um sturtu­klefa ís­lenskra sund­lauga, meðal þess sem er hvað vin­sælast. Leið­beiningarnar varpa ljósi á upp­lifun er­lendra ferða­manna af hrein­lætis­reglum í ís­lenskum sund­laugum.

„Það sem þið hafið heyrt er satt, þið þurfið að þvo ykkur nakin áður en haldið er til laugar,“ segir þar meðal annars. „Það er bannað að sleppa þessum þætti. Nei, börnin geta ekki sleppt þessu, alveg sama þótt þau vilji ekki vera alls­nakin innan um annað fólk.“

Meðal þess sem Lora mælir sér­stak­lega með er að sund­laugar­gestir byrji á því þegar komið er í sund­klefann að taka svæðið út og átta sig á stað­háttum, í stað þess að ber­hátta sig strax, standa svo ráð­villtur fyrir framan alla og alls­nakinn í þokka­bót.

Fjöl­skyldan stefnir á enn eina ferð til Ís­lands næsta sumar, enda þurfi að halda vefnum vel við og ljúka við gerð bókarinnar.