„Ég hef ekkert tjáð mig um þetta mál á sam­fé­lags­miðlum, nema auð­vitað með lýstum stuðningi til konunnar minnar þegar þetta mál bar fyrst upp í febrúar á þessu ári. Nú hafa á­sökunum verið beint að mér frá hans nánasta fólki að ég sé hið um­rædda nettröll sem sendi þessi skila­boð til hans,“ skrifar Sindri Þóra Kára­son, kærasti söng­konunnar Elísa­betar Ormslev, í færslu á Face­book.

Kveikjan að færslu Sindra er ný­leg Facebookfærsla tón­listar­mannsins Péturs Arnar Guð­munds­sonar, betur þekktur sem Pétur Jesú. Þetta er fyrsta færsla Péturs á sam­fé­lags­miðlum í lengri tíma, en hann hvarf af sam­fé­lags­miðlum í kjöl­far helgar­við­tals Frétta­blaðsins við söng­konuna Elísa­betu Ormslev í febrúar síðast­liðnum. Þar opnar Elísa­bet sig um sam­band sitt við Pétur þegar hún var að­eins sex­tán ára gömul og hann 38 ára.

Á Face­book segist Pétur vera að hætta sér „hægt og bítandi út úr skelinni“ á sam­fé­lags­miðlum og í kjöl­farið fái hann send skila­boð og birtir skjá­skot af fyrrnefndum skila­boðum, þar sem honum er út­húðað.

„Á líf hins út­skúfaða virki­lega að vera svona,“ spyr Pétur.

Sindri skrifar í færslu sinni að að­stand­endur Péturs standi í þeirri trú að þar sem hann sé kærasti Elísa­betar sé hann maðurinn á bak við haturs­fullu skila­boðin.

„Ætli það henti þeim ekki að ég sé vondi kallinn (því það liti illa út fyrir Elísa­betu?)“ skrifar Sindri.

Þá hafi honum borist skila­boð í vikunni frá að­standanda Péturs, með hlekk á streymis­veituna Youtu­be.

„Mér bárust skila­boð núna í fyrri nótt kl. 03:08, Youtu­be hlekk á lagið „Ráðið“ með Berg­þóru Árna­dóttur. Fyrir þau sem ekki þekkja til þá fjallar lagið um sak­fellingu sak­laus manns,“ skrifar Sindri, og heldur á­fram.

„Standa þau þá í þeirri trú að hann hafi ekki átt í sam­ráði við og tælt 16 ára barn? (hann byrjaði að reyna að ná at­hygli hennar 15 ára n.b),“ skrifar Sindri og spyr:
„Beitti hann hana ekki and­legu of­beldi í fjölda ára? Var hann ekki liggjandi á glugganum okkar í febrúar síðast­liðnum þegar við vorum varla búin að koma okkur fyrir í nýrri íbúð og hvergi skráð á þetta heimilis­fang?“

Þá minnir Sindri á að það sé til mynd­band af Pétri fyrir utan heimili þeirra.

Sindri segir að í kjöl­farið hafi komið á­sakanir um að hann stæði að baki skila­boðanna sem Pétri hafi borist, sem hann hafi neitað.

„Ég hef lítinn á­huga á á­reiti af þessu tagi og síst af öllu svona á­sökunum. Svo skal ekki gleyma að um­ræddur maður er sér­legur sér­fræðingur á “fake” að­göngum til þess að fylgjast með konunni minni á sam­fé­lags­miðlum, eftir að hún blockaði hann á öllum miðlum. Ég hvet ykkur (að­stand­endur hans) að finna blóra­böggul annars staðar,“ skrifar Sindri og bætir við:

„Eitt skal vera á hreinu að ef ég ætti eitt­hvað van­talað við þennan full­orðna mann þá mun ég ekki fela mig á bak við “leyni­að­gang”.“