„Ég hef ekkert tjáð mig um þetta mál á samfélagsmiðlum, nema auðvitað með lýstum stuðningi til konunnar minnar þegar þetta mál bar fyrst upp í febrúar á þessu ári. Nú hafa ásökunum verið beint að mér frá hans nánasta fólki að ég sé hið umrædda nettröll sem sendi þessi skilaboð til hans,“ skrifar Sindri Þóra Kárason, kærasti söngkonunnar Elísabetar Ormslev, í færslu á Facebook.
Kveikjan að færslu Sindra er nýleg Facebookfærsla tónlistarmannsins Péturs Arnar Guðmundssonar, betur þekktur sem Pétur Jesú. Þetta er fyrsta færsla Péturs á samfélagsmiðlum í lengri tíma, en hann hvarf af samfélagsmiðlum í kjölfar helgarviðtals Fréttablaðsins við söngkonuna Elísabetu Ormslev í febrúar síðastliðnum. Þar opnar Elísabet sig um samband sitt við Pétur þegar hún var aðeins sextán ára gömul og hann 38 ára.
Á Facebook segist Pétur vera að hætta sér „hægt og bítandi út úr skelinni“ á samfélagsmiðlum og í kjölfarið fái hann send skilaboð og birtir skjáskot af fyrrnefndum skilaboðum, þar sem honum er úthúðað.
„Á líf hins útskúfaða virkilega að vera svona,“ spyr Pétur.
Sindri skrifar í færslu sinni að aðstandendur Péturs standi í þeirri trú að þar sem hann sé kærasti Elísabetar sé hann maðurinn á bak við hatursfullu skilaboðin.
„Ætli það henti þeim ekki að ég sé vondi kallinn (því það liti illa út fyrir Elísabetu?)“ skrifar Sindri.
Þá hafi honum borist skilaboð í vikunni frá aðstandanda Péturs, með hlekk á streymisveituna Youtube.
„Mér bárust skilaboð núna í fyrri nótt kl. 03:08, Youtube hlekk á lagið „Ráðið“ með Bergþóru Árnadóttur. Fyrir þau sem ekki þekkja til þá fjallar lagið um sakfellingu saklaus manns,“ skrifar Sindri, og heldur áfram.
„Standa þau þá í þeirri trú að hann hafi ekki átt í samráði við og tælt 16 ára barn? (hann byrjaði að reyna að ná athygli hennar 15 ára n.b),“ skrifar Sindri og spyr:
„Beitti hann hana ekki andlegu ofbeldi í fjölda ára? Var hann ekki liggjandi á glugganum okkar í febrúar síðastliðnum þegar við vorum varla búin að koma okkur fyrir í nýrri íbúð og hvergi skráð á þetta heimilisfang?“
Þá minnir Sindri á að það sé til myndband af Pétri fyrir utan heimili þeirra.
Sindri segir að í kjölfarið hafi komið ásakanir um að hann stæði að baki skilaboðanna sem Pétri hafi borist, sem hann hafi neitað.
„Ég hef lítinn áhuga á áreiti af þessu tagi og síst af öllu svona ásökunum. Svo skal ekki gleyma að umræddur maður er sérlegur sérfræðingur á “fake” aðgöngum til þess að fylgjast með konunni minni á samfélagsmiðlum, eftir að hún blockaði hann á öllum miðlum. Ég hvet ykkur (aðstandendur hans) að finna blóraböggul annars staðar,“ skrifar Sindri og bætir við:
„Eitt skal vera á hreinu að ef ég ætti eitthvað vantalað við þennan fullorðna mann þá mun ég ekki fela mig á bak við “leyniaðgang”.“