„Þetta var bara frábær byrjun,“ segir Einar H. Haraldsson veiðivörður um laxveiðina sem hófst í Urriðafossi í Þjórsá í morgun.

Leigutaki veiðisvæðisins á Urriðafossi, Stefán Sigurðsson í Iceland Outfitters, veiddi fyrsta laxinn sem tók nánast á augabragði. Harpa Hlín Þórðardóttir, meðeigandi og eiginkona Stefáns, veiddi síðan fljótlega næsta lax sem reyndist vera 93 sentímetra hængur. Sá fékk að synda áfram sína leið eftir stutta viðkomu á bakkanum.

„Það að það skuli vera kominn hængur svona snemma þýðir að það er kominn fiskur í ánna,“ segir Einar veiðivörður.

Urriðafoss er sérstaklega sterkur í veiðinni fyrri hluta sumars og eru öll veiðileyfi í júní seld. Aðspurður segir Einar enn séu fáein veiðileyfi í júlí óseld og eitthvað í ágúst.