„Þetta er einskonar upprifjunarkvöld þar sem við minnumst þess hversu stutt er síðan erfitt var að finna aðrar samkynhneigðar konur á Íslandi,“ segir Ragnhildur Sverrisdóttir í samtali við Fréttablaðið. Hún heldur utan viðburðinn „Íslenska lesbían - frá torfi til torfu“ sem verður haldinn í Tjarnarbíó á föstudaginn sem hluti af Hinsegin dögum.

Lokað þjóðfélag

„Hugmyndin um þennan spjallviðburð er innblásin af Lönu Kolbrúnu Eddudóttur, útvarpskonu.“ Lana hélt fyrirlesturinn „Kona sem þekkir konu, sem þekkir konu: Tengslanet níunda áratugarins.” í húsnæði Samtakanna 78 fyrir fjórum árum. „Mér fannst það fara henni svo ákaflega vel af hendi að ég lét ekki látum fyrr en hún samþykkti að endurtaka leikinn og svo steinlá auðvitað að fá Hönnu Maríu Karlsdóttur, leikkonu með.“

„Þær Lana og Hanna munu stjórna spjallinu og fara með gesti í ferðalag um liðna tíma og rekja þá fordóma sem voru til staðar og minnast hvernig konur sem voru að koma út úr skápnum þurftu að leita uppi konur fyrir ekki svo löngu.“ Þá nefnir Ragnhildur að þjóðfélagið hafi verið ofboðslega lokað fyrir allt of skömmum tíma.

Hinsegin dagar skipta sköpum fyrir samfélagið að mati Ragnhildar.
Fréttablaðið/Eyþór

Kynvillingar í fjölmiðlum

Enginn sýnileiki var meðal hinsegin fólks á Íslandi fyrir nokkrum áratugum að sögn Ragnhildar. „Ég til dæmis kem sjálf út úr skápnum í kringum árið 1979 og vissi ekki um neina lesbíu á landinu.“ Hún segir engar fyrirmyndir hafa verið til staðar í samfélaginu og að hvergi hafi verið fjallað um lesbíur á jákvæðan hátt. „Ef það var minnst á fólk eins og mig í fjölmiðlum þá voru það kynvillingar.“

Hún segir gríðarlegan mun vera á stöðunni í dag. „Núna eru fyrirmyndir til staðar of öflugt samstarf samtakanna sem tekur á móti fólki á öllum aldri.“ Stuðninginn sem býðst fólki hjá samtökunum 78 vera ómetanlegan.

Deila reynslusögum

Þrátt fyrir breytta tíma telur Ragnhildur að enn geti verið erfitt fyrir hinsegin fólk að fóta sig í samfélaginu. „Það er biti fyrir fólk að koma út úr skápnum þegar þau eru að vaxa úr grasi.“ Þess vegna séu fjölbreyttir viðburðir Hinsegin daga kjörnir til að fræða almenning um stöðu fólks sem hefur ávallt verið jaðarsett í samfélaginu.

„Okkur langar að hitta konur um og yfir miðjan aldur og auðvitað viljum við líka fá yngri kynslóðina vegna þess að þær hafa örugglega gagn og gaman að því líka að vera með okkur.“ Ragnhildur býst fastlega við að fá góðar konur í salinn. „Hvort sem það sé með kaffibolla eða hvítvínsglas til að rifja upp þessa til allrar hamingju liðnu tíma.“