Ansi margir þekkja útlit VIPP-ruslafötunnar sem er fyrir löngu orðin tímalaus hönnunar­klassík. Færri þekkja þó söguna á bak við hana. Það var móðurafi Kaspers sem hannaði fötuna fyrir eiginkonu sína, ömmu Kaspers, fyrir heilum 80 árum síðan. Hún var hárgreiðslukona og vantaði hentuga ruslafötu á stofu sína og fékk.

„Afi vann bíl í happdrætti, seldi hann og notaði ágóðann til að opna sitt fyrsta verkstæði,“ segir Kasper um upphaf VIPP, sem í dag hannar og framleiðir húsgögn, ljós og smávörur eins og ruslatunnuna frægu.

Kasper heimsótti Ísland í fyrsta sinn á dögunum, heimsóknin var löngu tímabær að hans mati, enda hefur VIPP átt í farsælu samstarfi við Epal sem selt hefur vörur þeirra í yfir tvo áratugi.

„Það var móðir mín sem kom því samstarfi á við Eyjólf Pálsson á sínum tíma. Í upphafi snerist samstarfið aðeins um ruslafötuna, en hefur vaxið heilmikið og nú er verslunin komin með fleiri smáhluti, húsgögn og jafnvel eldhúsinnréttingarnar okkar í sölu en þær fá aðeins okkar bestu samstarfsaðilar. Íslendingar hafa augljóslega mikinn áhuga á danskri hönnun, því ef við tökum mið af höfðatölu seljast VIPP-vörurnar einna best hér,“ segir Kasper.

„Íslendingar hafa augljóslega mikinn áhuga á danskri hönnun, því ef við tökum mið af höfðatölu seljast VIPP-vörurnar einna best hér,“ segir Kasper.

Afi Kaspers við bílinn sem hann vann í happdrætti og varð upphafið að öllu.

Heppinn að vara afa var góð


Kasper lærði markaðsfræði í Bandaríkjunum og segir það ekki hafa verið augljóst að hann færi inn í fjölskyldufyrirtækið.

„Mamma tók við fyrirtækinu af föður sínum og þá var þetta ekki hönnunarfyrirtæki heldur málmsmiðja. Fyrirtækið samanstóð bara af henni, manni sem framleiddi tunnurnar og bókara.“

Meðfram meistaranámi í markaðsfræðum vann Kasper í fyrirtækinu og varð þannig fjórði starfsmaðurinn í hlutastarfi upp úr síðustu aldamótum.
„Systir mín var þá að læra grafíska hönnun og hún aðstoðaði með þann hluta starfseminnar. Þegar ég svo lauk námi 2005 vorum við orðin átta til níu starfsmenn.“

Kasper sá mikla vaxtarmöguleika og náði að koma tunnunni í sölu utan Danmerkur.

„Ég var heppinn að vara afa var góð og sagan var góð. Það skildi ég því ég hafði lært það. Tunnan setti okkur af stað og við bættum svo við vörum og skref fyrir skref óx fyrirtækið að því sem það er í dag.“

VIPP ruslatunnuna frægu má finna á mörgum íslenskum heimilum.

Sannkallað fjölskyldufyrirtæki


Í dag er VIPP sannkallað fjölskyldufyrirtæki en auk Kaspers starfa fyrir það eiginkona hans, móðir, systir og mágur og eru aðrir starfsmenn 54 talsins.

„Ég hef unnið með þeim í 20 ár og því myndi ég segja að það gengi vel,“ segir Kasper, aðspurður um hið nána fjölskyldusamstarf.

„Margir sem hafa spurt mig að þessu segjast vissir um að þeir gætu þetta ekki í þrjá daga,“ segir hann í léttum tón. „En þú þarft að vera góður í þessu. Þú þarft að vera raunsær, finna þína hæfileika og einbeita þér að þeim. Þannig berum við virðingu fyrir því hvað hin eru að gera.“

„Margir sem hafa spurt mig að þessu segjast vissir um að þeir gætu þetta ekki í þrjá daga,“

Fyrir sjö árum síðan var tekin ákvörðun um að herja á Bandaríkjamarkað og hefur systirin séð um þann hluta.

„Hún býr ásamt eiginmanni sínum á Manhattan og bjóða þau mögulegum viðskiptavinum að panta tíma og koma heim til þeirra. Þannig getur fólk skoðað til að mynda eldhúsið á alvöru heimili,“ segir Kasper en Bandaríkin eru nú orðin stærsti markaður VIPP.

„Mamma, sem er orðin 72 ára, vinnur enn í fyrirtækinu alla daga og heldur á ákveðinn hátt utan um starfsemina. Það er líka mikilvægt að nýir starfsmenn fái þannig að heyra söguna alla beint frá henni.“

Gefin var út bók með innliti á ólík heimili sem skarta VIPP-eldhúsinnréttingunni og hér má sjá eitt þeirra.

Óvart í hótelrekstur


Kasper er stórhuga og frá framleiðslu ruslatunnu er hann óvart kominn í hótelrekstur en það er áhugaverð saga á bak við VIPP-hótelin, sem eru algjörlega einstök.


„Fyrir um átta árum varð „The shelter“ til. Mig langaði að hanna hús sem hægt væri að framleiða í verksmiðju og selja um allan heim. Húsið og hugmyndin fékk gríðarlega athygli – en enginn keypti það,“ segir hann með áherslu.

The Shelter varð upphafið af VIPP hótelunum. Kasper ætlaði að selja húsið um allan heim. Allir vildu skoða það en enginn kaupa.

„Málið er að þetta er svo ósveigjanlegt og fólk vill fá að breyta aðeins, bæta við herbergi eða öðru og það er ekki hægt. Svo var flutningskostnaðurinn líka mikill.

Markaðslega var þetta frábært en enginn keypti húsið – nema einn bandarískur milljarðamæringur. Hann pantaði húsið bara eins og hann myndi panta gallabuxur á netinu og ég veit ekki einu sinni hvort hann setti það saman,“ segir Kasper um misheppnuðu hugmyndina sem svo varð kveikjan að einhverju algjörlega nýju.

„Húsið fékk þó mikla athygli, fólk vildi fá að búa þar, gista þar, verja hveitibrauðsdögunum þar og svo framvegis. En ég sagði alltaf nei enda að reyna að trekkja að kaupendur.“

„Húsið fékk þó mikla athygli, fólk vildi fá að búa þar, gista þar, verja hveitibrauðsdögunum þar og svo framvegis. En ég sagði alltaf nei enda að reyna að trekkja að kaupendur.“

Langar að hönnun sé upplifun


Eftir þó nokkurn tíma ákvað hann svo að hugsa þetta upp á nýtt og breyta húsinu einfaldlega í hótel.

„Allt frá því við opnuðum hefur verið uppbókað. Þetta varð á endanum góður bissness og þar getur fólk einnig prófað allar vörurnar okkar.“

Í dag eru VIPP-hótelin orðin nokkur, The Shelter stendur við vatn utan við Kristianstad í Svíþjóð en eins hafa hönnuðir VIPP innréttað risíbúð í Kaupmannahöfn, gamlan bóndabæ í Suður-Danmörku og einstaka húsnæði við Lysefjord í Noregi, svo eitthvað sé nefnt.

„Mig langar að gera meira af þessu,“ segir Kasper spenntur.

„Ekki í borgum, þar er nóg af hótelum, heldur á einstökum stöðum,“ segir hann.

„Mig langar að hönnunin sé upplifun, þú getur sest í sófa í búð en hvað með að prófa hann í alvöru samhengi? Þetta er nýtt í þessum geira en við erum að fara af stað með slík verkefni í Tasmaníu, Spáni, Ítalíu, Andorra og vonandi Íslandi.“

En hugmyndin á bak við VIPP nær enn aftur til ruslatunnunnar vinsælu og eru Kasper og félagar alltaf trúir upprunanum.

„Mýktina í línum tunnunnar má sjá í allri okkar hönnun og við viljum framleiða vörur sem eiga sér langan líftíma, vörur sem endast.“

VIPP hillurnar eru eins og annað frá merkinu, einfaldar og klassískar.