Í fyrirlestrinum blanda ég saman fræðilegum pælingum og staðreyndum um feimni og minni eigin reynslusögu,“ segir Ingveldur Gröndal, þjálfari hjá KVAN. Hún flytur á mánudaginn rafrænan fyrirlestur sem ber yfirskriftina „Frá lirfu yfir í fiðrildi.“ Þar segir Ingveldur frá mikilvægi þess að fara út fyrir þægindarammann, hvaða áhrif það getur haft á fólk að alast upp feimið og deilir reynslu sinni af feimni og leiðtogafærni.

„Ég nota húmorinn mikið í þessu því að þetta er alveg fyndið eftir á og þetta er það sem einkennir mig,“ segir Ingveldur, sem var mjög feimin þegar hún var barn. Hún lærði tómstunda- og félagsmálafræði í Háskóla Íslands og er nú þjálfari hjá KVAN, þar sem hún fer meðal annars fyrir vináttuþjálfun fyrir 7-9 ára börn. „Ég varð mjög hissa þegar ég áttaði mig á því að leiðtogafærni væri minn helsti styrkleiki, mér hefði ekki dottið það í hug að ég sem var svona feimin gæti orðið leiðtogi.“

Ingveldur segist muna vel eftir því hversu feimin hún var þegar hún var lítil, hún hafi alltaf verið sögð stillt, dugleg og góð, og að henni hafi verið fundin verkefni út frá því. „Ég var alltaf sett í það að púsla þegar ég var á leikskóla en ég hataði að púsla, þorði bara ekki að segja neitt.“

„Ég var með alls konar afsakanir þegar ég var yngri, að ég kæmist ekki að því að allir hinir töluðu svo hátt eða tóku svo mikið pláss, en í grunninn vantar mann auðvitað trú á eigin getu,“ segir Ingveldur og bætir við að hjá henni sjálfri hafi margt breyst þegar hún hóf að æfa handbolta.

„Ég hafði alltaf verið í ballett og að læra á píanó og fannst það alveg gaman, en þegar ég fór að æfa handbolta var mér gjörsamlega hrint út fyrir þægindaramman. Ég þurfti að taka af skarið og sýna frumkvæði og ég hefði alveg viljað þurfa að gera það fyrr, þannig komst ég út úr skelinni,“ segir Ingveldur.

Allir geti verið leiðtogar

Þá segir hún mikilvægt fyrir alla að gera ögrandi hluti og fara út fyrir þægindarammann og að foreldrar hvetji börn sín til þess. „Að sjálfsögðu þarf að fara varlega að hverju barni fyrir sig, því það er misjafnt hvað er of mikið fyrir hvern,“ segir hún.

„Svo eru hugmyndir um hvað það er að vera leiðtogi að breytast, það eru ekki endilega þessar staðal­ímyndir sem við erum kannski flest með efst í huganum, þau sem eru áberandi og fer mikið fyrir. Það eru líkar þessir auðmjúku og yfirvegaðri sem fer minna fyrir sem geta verið leiðtogar,“ útskýrir Ingveldur.

Spurð að því hvort og hvernig fólk geti komist út úr skelinni og unnið bug á feimninni, segir Ingveldur lykilinn að vinna í sjálfum sér og gera ögrandi hluti. „Mig grunar að það sé fullt af bæði börnum og fullorðnu fólki sem missir af alls kyns tækifærum vegna feimni. Þorir ekki að hafa sig í frammi, eða trúir því ekki að það geti gert ákveðna hluti,“ segir hún.

„Við erum öll með einhverja hæfileika og karaktereinkenni sem að bíða eftir því að brjótast út og fá að blómstra, en ef við prófum ekki nýja hluti þá áttum við okkur kannski ekki á þeim. Það eru svo fáir sem fara alla leið,“ segir hún.

„Það er svo mikið af fólki sem getur gert svo miklu betur, en það kýs að vera í þægindunum af því að það er miklu auðveldara og þægilegra, það er kannski hrætt við álit annarra eða hrætt við það að gera mistök, en allt sem við gerum til að vinna í sjálfum okkur fer í reynslubankann og ef við þorum að leyfa okkur að dreyma stórt þá getum við séð hvað gerist,“ bætir Ingveldur við.

Ingveldur segir mikilvægt að gera ögrandi hluti og fara út fyrir þægindarammann.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Margir vilji brjótast úr skelinni

Ingveldur segir fjölda fólks leita til KVAN með það að markmiði að brjótast út úr skelinni og sigrast á feimninni. Það sé öllum hollt að vinna í sjálfum sér og að ekki þurfi að vera mikið í gangi hjá fólki til að það hefji sjálfsvinnu. „Það er stór misskilningur að fólk þurfi að vera komið á botninn til að vinna í sjálfu sér, það er ekki þannig. Það er alltaf hægt að skoða sig og spá í sér, maður græðir alltaf á því.“

Spurð að því hvort að heimsfaraldurinn geti haft meiri áhrif á þau sem feimin eru og minnkað félagsleg samskipti þeirra enn meira, segir Ingveldur það mætavíst. Áhrif faraldursins geti þó líka verið jákvæð að einhverju leyti, líti maður þannig á það.

„Þrátt fyrir allt þá mun þetta mögulega efla börn í þrautseigju og því að lifa í óvissu, það er gott að æfa sig í því ungur ef maður gerir það rétt. Svo ef það er einhvern tímann rétti tíminn til að vinna í sér, þá er það núna,“ segir hún.

„Breyttar aðstæður kalla oft á breytingar innra með okkur og núna eru margir að líta inn á við í fyrsta sinn af því að þeir eru meira heima með sjálfum sér og sínum hugsunum,“ segir Ingveldur og bætir við að sjálf hafi hún lært ýmislegt á síðustu tveimur árum.

„Persónulega hefur mér alltaf fundist það erfitt þegar plön breytast, en nú er mér farið að þykja það auðveldara og auðveldara að taka á því sem kemur hverju sinni, af því ég er orðin vanari því,“ segir Ingveldur.

Fyrirlestur Ingveldar verður í beinu streymi á Facebook-síðu KVAN, 24. janúar klukkan 20.