Steinbergur Finnbogason, verjandi Claudiu Sofia Coel­ho Car­va­hlo, fyrrverandi kærustu Angjelin Sterkaj í Rauðagerðismálinu, krefst þess að Landsréttur staðfesti ákvörðun héraðsdóms um sýknu hennar í málinu. Til vara krefst hann þess að henni verði gerð lægsta löglega refsing komi til þess að hún verði sakfelld í málinu.

Þriðji og síðasti dagur í aðalmeðferð Rauðagerðismálsins fyrir Landsrétti hófst í morgun og stendur enn yfir. Steinbergur var rétt í þessu að ljúka munnlegum málflutningi sínum.

Steinbergur var að kröfu lögreglu látinn víkja sem verjandi í Rauðagerðismálinu á sínum tíma. Fjarskiptagögn sýndu að hann hafi verið í samskiptum við aðra sakborninga í málinu bæði fyrir og eftir að hann var skipaður verjandi í málinu.

Steinbergur tók nokkrum sinnum fram í máli sínu nú í dag fyrir Landsrétti, og lagði áherslu á, að Claudia væri einstæð móðir af erlendu bergi broti en hún er frá Portúgal.

Claudia er ein þriggja sakborninga sem saksóknari krefst að verði sakfelld fyrir aðild sína í morðinu á Armando Bequiri sem skotinn var til bana fyrir utan heimili sitt í febrúar í fyrra. Hún fékk sýknu í héraði ásamt tveimur öðrum en vill saksóknari snúa því við og krefst þess að hún og hinir tveir fái að lágmarki fimm ára dóm.

Claudia er sökuð um að hafa vaktað Armando daginn sem hann var myrtur og að hafa flutt morðvopnið í tösku frá Borgarnesi til Reykjavíkur. Í skýrslutöku í héraði sagðist hún ekki hafa vitað hvað væri í töskunni.

Steinbergur sagðist taka undir málflutning ákæruvaldsins, Kolbrúnar Benediktsdóttur, sem snéri að því hversu trúverðugur framburður Claudiu hafi verið og sagði hana þá einu sem hefði engu breytt, allavega engu sem skipti máli. Hann sagði framburð Claudiu hafa verið mjög stöðugan og að hann hafi passað vel við myndbandið sem sýnt hafi verið. Vísaði hann til tveggja tíma myndbandsupptöku sem sýndi ferðir fjögurra ákærðu í málinu.

Að sögn Steinbergs er Claudia ekki í neinum samskiptum við það fólk sem hún kynntist í gegnum ástarsamband sitt við Angjelin. Hún einbeitti sér nú að því að sinna dóttur sinni og að hún ætti eigin íbúð. Kæmi til þess að hún yrði sakfelld þá myndi það kippa allri framtíð undan henni og barni hennar.

Steinbergur segir að ekki hafi tekist að sanna að Claudia hafi vitað eða mátt vita hvað væri í vændum kvöldið sem Armando var myrtur.