Íbúi í nýrri vistvænni byggð í Gufunesi kveðst langþreyttur á úrræðaleysi í samgöngumálum á svæðinu.

Sem stendur er búið í 45 íbúðum á svæðinu, en eina gönguleiðin þaðan í strætó er kílómetra langur grýttur og óupplýstur vegslóði. Formaður skipulags- og samgönguráðs segir borgina vinna að endurbótum fyrir næsta sumar.

Sendi ábendingu í ágúst

Rakel Glytta Brandt, bíllaus íbúi í hverfinu, sendi ábendingu til borgarinnar í ágúst, þar sem hán kallaði eftir umbótum á borð við lýsingu og malbikun í Gufunesi. Rakel átti erfitt með að komast út á mánudagsmorguninn. „Frá því að ég steig út úr húsi kveið ég fyrir að reyna að komast heim,“ segir hán.

Borgin svaraði erindinu í lok nóvember, á þá leið að lýsing væri komin að mestu, gatan hefði verið malbikuð að hluta og að gönguleið að strætóstöð við Strandveg „væri að fara í útboð fljótlega“.

Vistfélagið Þorpið byggir húsin í Jöfursbás í Gufunesi, en í kynningarefni frá því kemur fram að í hverfinu eigi að vera sjálfbærar samgöngur.

Bátastrætó framtíðarsýnin

„Við leggjum áherslu á deilibíla sem eru að koma eftir að borgin lauk við að malbika, og almenningssamgöngur,“ segir Runólfur Ágústsson, þróunar- og verkefnastjóri Þorpsins. Hann bætir við að hluti af framtíðarsýn fyrir hverfið sé bátastrætó sem gangi til miðborgarinnar.

Runólfur segist harma að ekki séu komnar viðeigandi almenningssamgöngur í hverfið.

„Við höfum ítrekað ýtt við því máli, en höfum fengið þau svör að þetta sé alveg að koma og verið sé að vinna að skutlþjónustu. En þetta er ekki viðunandi staða,“ segir hann.

Strætó bíður eftir beiðni

Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi og formaður skipulags- og samgönguráðs, segir að ráðið hafi í gær samþykkt nýjar tillögur að samgöngutengingum inn í hverfið.

Annars vegar sé um að ræða nýja vegtengingu sem liggi norðan við núverandi tengingu, auk betri stígatenginga gegnum Hallsteinsgarð.

Lögð var fram tillaga um viðauka við fjárhagsáætlun næsta árs, sem felur í sér pöntunarþjónustu fyrir strætó inn í hverfið. Hann segir að íbúar geti búist við endurbótum á stígum næsta sumar.

Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir lausnina liggja fyrir tilbúna.

„Reykjavíkurborg er að fara í gegnum fjárhagsáætlun en við getum komið akstrinum af stað um leið og við fáum beiðni.“