Garðar Jóhannsson og Margrét Ragnarsdóttir sóttu um byggingarleyfi vegna heimilis síns að Reynilundi 11 í september 2017. Snerust breytingarnar aðallega um stækkun bílskúrs um 1,5 metra, að bæta við glugga í gluggalausu hjónaherbergi og að koma fyrir opnanlegum fögum á nokkra glugga. Með umsókninni fylgdi samþykki tveggja annarra nágranna í raðhúsalengjunni og kemur fram í ítarlegri greinargerð málsins að framkvæmdin breyti ekki ásýnd hússins stórvægilega að mati hjónanna.

Umsóknin var í kjölfarið grenndarkynnt til íbúa raðhúsalengjunnar en athugasemdir bárust aðeins frá einum íbúa, Albínu Thordarson arkitekt í Reynilundi 17, sem lagðist gegn breytingum. Albína teiknaði húsin á sínum tíma en þau eru byggð um 1970.

Tveimur árum frá umsókn byggingarleyfisins var nýtt deiliskipulag fyrir hverfið kynnt. Við vinnslu þess var ráðist í sérstaka húsakönnun og ein niðurstaða hennar var sú að varðveislugildi umræddrar raðhúsalengju væri metið hátt. Í kjölfarið var umsókninni um byggingarleyfi synjað.

Í greinargerðinni er sú ákvörðun gagnrýnd, sérstaklega í ljósi þess að varðveislugildi húsanna byggðist á innra skipulagi þeirra en ekki ásýnd þeirra utanhúss.

Þá kemur fram að hjónunum sé stórlega misboðið vegna málsmeðferðar bæjaryfirvalda í Garðabæ. Úrvinnslan hafi verið undarleg frá upphafi og öll samskipti einkennst af meðvirkni og ómálefnalegum vinnubrögðum.

FB-Ernir191211-Reynilundur-02.jpg

Albína Thordarson teiknaði húsin við Reynilund 11-17.

Meðal annars er fullyrt í greinargerðinni að bærinn hafi verið tvísaga varðandi rökstuðning um synjun umsóknarinnar og vitnað bæði í áðurnefnt varðveislugildi sem og mótmæli nágrannans. Þá hafi verið brotið á andmæla- og upplýsingarétti hjónanna sem og að bæjaryfirvöld hafi brotið gegn jafnræðisreglu með því að gera sjónarmiðum annars bæjarbúa hærra undir höfði.

Fullyrða hjónin að Albína hafi barist af hörku gegn því að leyfið yrði veitt, meðal annars með fjölmörgum erindum til starfsmanna Garðabæjar og Minjastofnunar vegna málsins. Gagnrýna þau harðlega að hafa ekki fengið að koma sínum sjónarmiðum á framfæri í málinu.

Fara þau fram á að ákvörðun bæjarstjórnar um að hafna umsókninni um byggingarleyfið verði hnekkt. Íhuga þau enn fremur að leggja fram bótakröfu á hendur bænum enda hafi ferlið kostað þau bæði tíma og fjármuni.