Fatnaður og skór kostuðu mest á Íslandi árið 2021 af öllu EES-svæðinu. Alls var verðlag á Íslandi það næsthæsta, á eftir Sviss, og 50 prósentum hærra en meðalverð álfunnar. Þetta kemur fram hjá Eurostat, tölfræðistofnun Evrópu.

Á eftir Íslandi koma Noregur, Danmörk og Írland en lægsta verðlagið er í Rúmeníu, Búlgaríu og Póllandi.

Árið 2020 var fatnaður dýrastur í Danmörku en Ísland stökk upp um 10 prósent og á toppinn á þeim lista. Eru föt og skór nú 35 prósentum yfir meðalverðlagi í Evrópu.

Matur er 39 prósentum yfir meðalverðlagi og hefur hækkað um 7 prósent milli ára. Þó er matur töluvert dýrari í bæði Sviss og Noregi. Áfengi og tóbak hefur hækkað um 9 prósent og næst hæst í Evrópu á eftir Noregi.

Lengst frá meðalverðlagi Evrópu eru vörur og þjónusta tengd heilsu og menntun. Í báðum tilfellum meira en 100 prósent dýrari á Íslandi.