Það að konur verði ó­frískar og ali börn í sam­böndum sínum er hluti af lífinu og eðli­legur gangur finnst fólki flestu. Við fögnum þegar fréttir berast af því að kona sé þunguð og til­kynnt er um til­vonandi barn­eign alla jafna. Nýtt líf og upp­haf er spennandi og því fylgja miklar breytingar á um­hverfi for­eldra, en ekki síður fjöl­skyldum þeirra sem taka iðu­lega virkan þátt í ferlinu og síðar upp­eldi barnanna. Til­hlökkunin er mikil og væntingarnar sömu­leiðis.

Það er því mikið á­fall ef kona missir fóstur og því fylgir rússí­bani til­finninga allra þeirra sem hlut eiga að máli. Það skiptir vissu­lega máli undir hvaða kring­um­stæðum slíkt gerist og hvort undan­fari hafi verið á slíku eða það gerist brátt. Þá ber einnig að huga að því á hvaða hluta með­göngunnar konan er, en eitt er víst að það skilur eftir sig spor.

Með­gangan frá þungun til fæðingar er til­tölu­lega langt ferli eða um 40 vikur og á þessum tíma verða miklar breytingar á fóstrinu sjálfu og auð­vitað líkama hinnar þunguðu. Við tölum al­mennt í læknis­fræði um hluta með­göngu sem er skipt í 12 vikur eða tri­mester. Á fyrstu 12 vikum er iðu­lega mesta ó­öryggið um það hvort þungun gangi eftir og síðari hlutar með­göngu taldir öruggari, ef svo má segja. Fóstur­lát er lík­lega al­gengara en fólk gerir sér grein fyrir, en talað er um snemm­búin fóstur­lát sem eru á fyrstu 12 vikum og síð­búin sem eru á vikum 12-22. Eftir 22. viku er talað um and­vana fæðingu.

Að eignast barn er nefni­lega ekki sjálf­sagður hlutur, það er mikil gjöf og blessun fyrir flesta.

Tölur eru eitt­hvað á reiki um tíðni fóstur­láta en talið er að allt að 15 til 20% þungana endi í fóstur­láti sem þýðir að það eru mörg hundruð konur á hverju ári sem missa fóstur og sumar oftar en einu sinni. Á­stæðurnar er fjöl­margar eins og gefur að skilja; fóstur­gallar, breytingar í fylgju­vef, sjúk­dómar móður og svo fram­vegis. En í mörgum til­vikum vitum við ekki hvers vegna, og það getur skapað mikla van­líðan og ó­vissu fyrir þá konu. Það er því mikil­vægt að upp­fræða um á­hættu­þætti sem geta ýtt undir fóstur­missi líkt og aldur, lífs­stíls­þætti og aðra slíka en ekki síður að upp­fræða um al­gengi þessa og að í fæstum til­vikum sé um að ræða eitt­hvað sem gerðist á með­göngunni sjálfri sem veldur. Þannig eru minni líkur á sjálfs­á­sökunum og van­líðan við­komandi sem aftur getur haft á­hrif á frjó­semi og vilja þeirra til að reyna að nýju.

Að eignast barn er nefni­lega ekki sjálf­sagður hlutur, það er mikil gjöf og blessun fyrir flesta. Sem betur fer gengur alla jafna vel og mæðra­vernd og eftir­fylgni ljós­mæðra með þunguðum konum og skipu­lögð nálgun á á­hættu­þætti þeirra þar hefur skilað mjög góðum árangri hér­lendis. Opin um­ræða um fóstur­missi og sorgar­ferli það sem því fylgir er mjög nauð­syn­leg og mikil­vægt að átta sig á því að við­brögð eru mjög ein­stak­lings­bundin sem og að þau tengjast í engu með­göngu­lengd við­komandi.