Fjórar konur segja frá reynslu sinni af fósturmissi. Sumar misstu snemma á meðgöngu, ítrekað, á meðan aðrar fæddu andvana börn. Allar segja þær að það hafi verið þeim léttir að tala um missinn og segja að það þjóni litlum tilgangi að þegja um það. Opin umræða hjálpi frekar konum að takast á við missinn. Þær segja þó mikilvægt að muna að á bak við hvern missi, er barn sem ekki varð.

Silja Hlín á eina dóttir í dag með eiginkonu sinni, Önu. Þær ákváðu eftir margar misheppnaðar tilraunir til að eignast annað barn að láta það nægja.
Fréttablaðið/Anton Brink

Silja Hlín: Þarf enn að syrgja hugmyndina um fleiri börn

Silja Hlín Guð­björns­dóttir hefur misst fóstur í tví­gang. Hún er 32 ára. Fyrra skiptið var í árs­byrjun árið 2014. Hún og kona hennar, Ana, höfðu ný­lega til­kynnt for­eldrum sínum um þungunina en eina nóttina um miðjan janúar byrjaði skyndi­lega að blæða, með verkjum.

„Eitt kvöldið voru verkirnir hræði­legir og ég gat ekki sofið. Í dag veit ég að verkirnir eru sam­drættir eða hríðir. Ég fór síðan í hundraðasta skipti, að mér fannst, á klósettið þá nóttina og þá féll rosa­legt magn af „guð má vita hverju“ í klósettið. Ég vissi um leið að þetta hefði verið fóstrið,“ segir Silja.

Að því loknu fór hún í leigu­bíl, með hand­klæði í klofinu, á kvenna­deild Land­spítalans þar sem hún var skoðuð.

„Ég var skoðuð strax og það var stað­fest fóstur­lát. Ég grét alveg hrika­lega hátt, man ég. Þetta var um fjögur leytið um nóttina. Það var enn þá mikið blóð í leginu og fóstur­vefur og því var kallað út eitt­hvert lækna­t­eymi, svæfinga­læknir og þess háttar þar sem ég þurfti að fara í litla að­gerð eða „út­skaf“. Konan mín segir að það versta í þessu öllu hafi verið að sjá mig veina eins og stunginn grís þegar spítala­rúminu mínu var rúllað eftir ganginum inn á skurð­stofu,“ segir Silja.

Hún segir að sér hafi liðið hörmu­lega eftir fóstur­missinn, bæði á líkama og sál. Hafi verið mátt­laus og grátið mikið.

„Ég þurfti að fara á klósettið og hringdi á hjúkrunar­fræðing. Ég sagði henni, hálf­grátandi, að ég væri mátt­laus og gæti ekki gengið ó­studd. Hún hreytti í mig: „Iss, þetta segja þær allar.“ Hún vildi ekki leiða mig inn, svo ég náði ein­hvern veginn að drösla mér inn,“ segir Silja.

Hún segir að hún hafi að því loknu pissað með opnar dyr og á sama tíma hafi hjúkrunar­fræðingurinn komið sér fyrir í stól sem var þarna.

„Hún var aug­ljós­lega að klára nætur­vakt og dæsti hátt: „Vá, þú getur ekki í­myndað hvað ég er þreytt.“ Ég hefði gert allt fyrir að vera bara þreytt eftir langa vakt,“ segir Silja. Hún segir að í gegnum allt hennar ferli hafi þetta verið eina ó­nær­gætna manneskjan sem hún hitti.

Staðráðnar í að eignast fleiri börn þrátt fyrir missinn

„Ég missti þegar ég var komin 8 vikur og 4 daga á leið. Ég grét enda­laust. Mér skilst að konur taki þessu mis­vel eða illa og ég held að ég hafi verið ein­stak­lega brotin eftir þetta,“ segir Silja.

Hún segir að þrátt fyrir missinn hafi hún og kona hennar verið stað­ráðnar í að reyna aftur. Þær reyndu aftur í bæði mars og apríl og þá varð Silja aftur ó­létt.

„Ég var ó­trú­lega á­nægð en samt ein­hvern veginn lömuð af kvíða og ótta við að það sama gerðist aftur. Ég gat með engu móti leyft mér að njóta of mikið,“ segir Silja.

Hún segir að læknir hafi út­skýrt fyrir henni að konur missi yfir­leitt einungis einu sinni og að það væri ekki lík­legt að það gerðist aftur.

„Ég reyndi að minna mig á það. Síðan byrjaði að blæða, með verkjum. Það ná­kvæm­lega sama gerðist aftur, blæddi í viku og svo stað­festur missir. Ég var þá komin 6 vikur og 4 daga. Ég þurfti ekki að fara í út­skaf aftur, heldur fékk ég lyf sem valda sam­dráttum í legi svo fóstrið skili sér. Það var ömur­legt og líka vont, en samt ekki nærri jafn sárt og ég hafði heyrt frá öðrum konum,“ segir Silja.

Hún segir að eftir tvo missi hafi henni liðið mjög illa. Hafi grátið mikið, verið þung­lynd og hafi þótt erfitt að hitta aðrar ó­léttar konur. Kona hennar og vin­konur hafi stutt vel við hana, og meðal annars safnað peningum sem þær gáfu þeim svo Silja gæti farið í aðra upp­setningu á fóstur­vísi.

„Mér fannst ömur­legt að geta ekki stutt ó­frískar vin­konur meira, þar sem ég hef alltaf verið „fyrst á svæðið“ ef ein­hver þarf stuðning. Með lyfjunum og sál­fræði­með­ferð fór mér smám saman að líða betur. Við á­kváðum að taka barn­eignar­pásu og í stað þess að setja alla þessa peninga í glasa­frjóvgun að safna okkur fyrir brúð­kaupi. Við giftum okkur ári eftir missi númer tvö, sumarið 2015,“ segir Silja.

Góðu stundirnar hafi einnig valdið sorg

Hún segir að eftir á hyggja, hafi það ekki bara verið missirinn sem hafi verið henni slæmur heldur hafi góðu stundirnar einnig, eftir á, valdið henni sorg.

„Minningin um að hafa grátið af gleði á að­fanga­dags­kvöld þegar við til­kynntum. Að hafa „vogað mér“ að reikna út á­ætlaðan fæðingar­dag og margt fleira í þeim dúr,“ segir Silja.

Hún segir að fólk hafi al­mennt viljað henni mjög vel en að hún hafi oft fengið ó­þægi­leg ráð og at­huga­semdir. Þær hafi oft verið spurðar af hverju þær ætt­leiði ekki. En Silja segir það dýrt ferli og að sam­kynja pör fái sjaldnast að ætt­leiða er­lendis frá.

„Ég fékk at­huga­semdir eins og „þessu var bara ekki ætlað að verða“, „heldurðu að þú gætir hafa gert eitt­hvað sem olli því að þú misstir“ og verst af öllu „já, leiðin­legt, en þetta var samt ekki barn, bara fóstur“. Þegar þú missir fóstur þá ertu ekki bara að missa fóstur, þú ert líka að missa drauminn um barn, stóra kúlu, barna­vagn og allt þetta. Þannig að fyrir þér er þetta barn, en ekki bara ein­hver rækja með smá hjart­slátt,“ segir Silja.

Hún segir að fólk hafi líka verið mjög dug­legt að segja henni frá öðrum konum sem höfðu misst 10 sinnum og fætt and­vana börn. Þær væru margar sem hefðu lent í miklu verra.

„Mér fannst eins og ég hefði ekki leyfi til að vera svona leið,“ segir Silja.

Árið 2015 fór Silja, í fimmta sinn, í glasa­frjóvgun sem heppnaðist. Hún var þá komin á lyf við van­virkum skjald­kirtli og hafði greinst með glútenóþol. Hvort tveggja getur tengst fóstur­missi ef það er ekki með­höndlað.

„Ég varð sem sagt ó­létt en þegar ég var komin 6 vikur þá byrjaði að blæða. Ég trúði þessu ekki! Ég var frá vinnu í rúma viku, minnir mig, ég lá bara á gólfinu eða í hnipri í rúminu og grét úr mér augun. Ég var búin að á­kveða að ef ég myndi missa í þriðja sinn þá myndi ég ekki reyna aftur þar sem ég hefði ekki geð­heilsu í það. En síðan hætti bara skyndi­lega að blæða. Á 12. viku á­kvað ég að leyfa mér að vera glöð. Ég missti ekki, og í dag á ég þriggja ára stelpu,“ segir Silja.

Silja segir að ekkert í lífinu hafi reynst henni erfiðara en barn­eignar­ferlið og að missa tvisvar. Hún og kona hennar á­kváðu þó samt sem áður í fyrra að reyna við annað barn. Þær hafi sett upp síðasta fóstur­vísinn frá síðustu til­raun, en það hafi ekki gengið.

„Ég var hand­viss um að með­ferðin hefði heppnast, en sú var ekki raunin. Aftur byrjaði sama ruglið, að fara grátandi heim úr vinnu, vera ó­trú­lega þung­lynd og kvíðin. Þrátt fyrir að eiga einn fóstur­vísi í frysti, þá á­kváðum við að segja stopp, og taka þá erfiðu á­kvörðun að eiga ekki fleiri börn.“

Ákváðu að lokum að eignast ekki fleiri börn

Eftir það á­kváðu þær að reyna að nota egg frá Silju, en dóttir þeirra er úr eggi úr konu hennar. Eftir rann­sóknir á Silju hafi þó komið í ljós að eggin hennar hafi verið eins og í eldri konu. Hún hóf hormóna­með­ferð sem endaði með því að fjögur egg náðust úr henni. Það fór svo að einn fóstur­vísir var settur upp og einn fór í frysti.

„Ég var hand­viss um að með­ferðin hefði heppnast, en sú var ekki raunin. Aftur byrjaði sama ruglið, að fara grátandi heim úr vinnu, vera ó­trú­lega þung­lynd og kvíðin. Þrátt fyrir að eiga einn fóstur­vísi í frysti, þá á­kváðum við að segja stopp, og taka þá erfiðu á­kvörðun að eiga ekki fleiri börn,“ segir Silja.

Hún segir á­kvörðunina hafa verið mjög erfiða, en á sama tíma mjög frelsandi.

„Það eru margir kostir við að eiga bara eitt barn. En ég þarf enn að syrgja hug­myndina um fleiri börn. Ég hefði aldrei í­myndað mér að þetta yrði svona erfitt, allt þetta ferli,“ segir Silja.

Hún segir að sér hafi alltaf þótt gott að tjá sig um missinn og heyra um reynslu annarra. Sér­stak­lega hafi hjálpað að fara á fyrir­lestra og kaffi­húsa­hittinga hjá Til­veru, sam­tökum um ó­frjó­semi.

„Mér fannst ó­trú­lega magnað að tala opin­skátt um fóstur­missa við, til dæmis, eldri konur. Ég hef tvisvar lent í því að kona segi mér frá missi sem hún hefur aldrei sagt frá áður, því um­ræðu­efnið sé svo ó­þægi­legt,“ segir Silja.

Hún segir að, eins og allt annað, þá verði að tala um fóstur­missi til að komast í gegnum hann.

„Það gerir engum greiða að þagga þetta í hel og burðast með þetta alla ævi. Vonandi geta fleiri konur talað um að hafa misst fóstur þó ekki sé nema við vini sína eða fjöl­skyldu. Þetta er alveg rosa­lega al­gengt. Ég er þakk­lát fyrir þessa reynslu þó ég vildi óska að ég hefði ekki gengið í gegnum þetta.Þetta sýndi mér úr hverju ég er gerð, hvað konan mín er yndis­leg og hvað ég á marga góða að í lífinu. Svo er ég enda­laust þakk­lát fyrir þessa yndis­legu dóttur sem mér tókst að eignast,“ segir Silja að lokum.

Svanhvít Jóhanna og Ellert Arnar, maðurinn hennar, með dóttir þeirra, Móeiði.
Fréttablaðið/Ernir

Svanhvít Jóhanna: Drengurinn hefði fæðst 17. júlí

Svan­hvít Jóhanna Jóhanns­dóttir fæddi drenginn sinn and­vana á 22. viku með­göngunnar fyrr á þessu ári. Eftir 22. viku er talað um and­vana fæðingu. Það sem Svan­hvít upp­lifði var því strangt til orða tekið síð­komið fóstur­lát, en þó á mörkum þess að vera and­vana fæðing.
Svan­hvít á eina tveggja ára stúlku fyrir og hafði aldrei misst áður.

Spurð hvort hana hafi grunað að eitt­hvað væri að segir Svan­hvít að hana hafi „ekki beint“ grunað það, en segir að hennar fyrri með­ganga hafi verið mjög erfið og því hafi hún haft ein­hverjar á­hyggjur.

Í 20 vikna sónar kom svo í ljós að engin nýrna­starf­semi var hjá fóstrinu og því ekkert leg­vatn. Fram að 15. til 16 viku fram­leiðir móðirin leg­vatnið fyrir fóstrið, en eftir það taka nýru fóstursins við og eiga sjálf að fram­leiða leg­vatnið.

„Ljós­móðirin sagði við okkur að þetta væri mjög al­var­legt og að ég þyrfti að hitta sér­fræðing,“ segir Svan­hvít.

Svan­hvít og maðurinn hennar fengu tíma hjá sér­fræðingi daginn eftir sem stað­festi það sem ljós­móðirin sagði þeim.

„Hún gaf okkur fræði­heitið á þessu og sagði að það væru engar lífs­líkur hjá barninu. Þar sem það voru engin nýru þá var það ekki að fram­leiða neitt leg­vatn,“ segir Svan­hvít.

Hún segir að þau hafi svo leitað sér upp­lýsinga um fóstur­gallann og að alls staðar hafi þau lesið það sama. Að lífs­líkur væru engar.

„Þá á­kváðum við að enda með­gönguna. Þetta mjög sjald­gæfur galli. Það er ekki al­gengt að þetta upp­götvist í 20 vikna sónar og ljós­mæðurnar sögðu okkur að það væri að­eins hand­fylli af fólki sem þarf að taka svona á­kvarðanir eftir 20 vikna sónar, sem betur fer,“ segir Svan­hvít.

Hvernig leið þér?

„Þetta var hræði­legt og það var mjög erfitt að hitta ljós­móðurina og bíða í sólar­hring eftir að hitta sér­fræði­lækni. Það var mjög erfiður sólar­hringur,“ segir Svan­hvít.

„Okkur fannst nóg að vera þarna með honum í nokkra klukku­tíma og fórum heim seinni partinn. Ein­hvern tímann verður maður að kalla það gott. En þær eru mjög dýr­mætar minningarnar sem við fengum eftir að hafa verið með honum. Að fá að halda á honum og taka myndir“

Hrædd við fæðinguna

Svan­hvít fékk lyf sem stöðva fram­leiðslu þungunar­hor­móna og svo tveimur dögum síðar fór hún upp á spítala þar sem hún þurfti að fæða barnið. Hún segir að hún hafi verið mjög hrædd við fæðinguna.

„Ég var búin að skrá mig í Face­book-hóp sem Gleym-mér-ei er með um fóstur­missi. Ég vissi ekkert hvernig fæðingin yrði og var mjög hrædd við hana. Þetta eru að­stæður sem maður veit að konur hafa gengið í gegnum. Sem hefur alltaf þótt eitt­hvað svona „vá, hvernig geta þær þetta“. En svo verður maður að gera þetta sjálfur og kemst þá að því að maður getur það líka. Það verður ekki hjá því komist,“ segir Svan­hvít.

Eftir fæðinguna var drengurinn hjá þeim í nokkra klukku­tíma. Þeim hafi þó staðið til boða að fá af­not af kæli­vöggu á Land­spítalanum sem er þar sér­stak­lega fyrir konur sem fæða börn sín and­vana.

„Okkur fannst nóg að vera þarna með honum í nokkra klukku­tíma og fórum heim seinni partinn. Ein­hvern tímann verður maður að kalla það gott. En þær eru mjög dýr­mætar minningarnar sem við fengum eftir að hafa verið með honum. Að fá að halda á honum og taka myndir. Fé­lags­ráð­gjafi fer yfir þetta með manni áður en það gerist,“ segir Svan­hvít.

Sérstök aðstaða á spítalanum fyrir konur sem fæða andvana börn

Hún segir að konur í þessari að­stöðu fæði ekki á fæðingar­deildinni, heldur á kvenna­deildinni. Þar sé sér­stök stofa fyrir þessar að­stæður.

„Þannig að konur þurfi ekki að fæða and­vana börn í kringum þær sem eru að fæða börnin sín og fá að taka þau með heim. Það er mjög fal­legt fram­tak að búa til þessa stofu. Líka fyrir þær konur sem eru að fæða heil­brigðu börnin sín og fara með þau heim. Að þurfa ekki að upp­lifa konur í svona rosa­lega mikilli sorg,“ segir Svan­hvít.

Hún segir að í þessari stöðu langi mann ekki að hitta ó­léttar konur, en segir að það sé þó ekki hollt að forðast þær, eða konur með ný­fædd börn, að ei­lífu.

„Maður á ekkert endi­lega að forðast það, heldur leyfa þeim að koma og til­finningunum um leið. Drengurinn hefði átt að fæðast núna 17. júlí. Það er sem betur fer engin í mínu nánasta um­hverfi að fæða núna, en ég veit um konur sem eru að því. Maður sam­gleðst þeim auð­vitað, en það fyrsta sem maður hugsar þegar maður sér Face­book-færsluna um að það sé kominn lítill drengur er gríðar­leg af­brýði­semi og öfund­sýki. Sem er ömur­leg til­finning, en hún líður hjá. Maður má alveg leyfa sér að skilja ekki strax eftir at­huga­semd með hamingju­óskum. Það kemur alveg að því að maður geti það, en ég verð að gera það þegar ég er til­búin,“ segir Svan­hvít.

Svan­hvít segir að þótt hún hafi aldrei beint kennt sjálfri sér um fóstur­missinn þá hafi hún spurt eftir krufningu hvort hún hefði getað gert eitt­hvað öðru­vísi.

„Ég kenndi mér aldrei um, en spurði alveg hvort þetta hefði verið af því að ég drakk stundum þrjá kaffi­bolla í staðinn fyrir einn. En sér­fræði­læknir sagði okkur að ef það væri hætta á því myndu þær segja öllum að drekka ekkert kaffi,“ segir Svan­hvít.

Erfitt að hringja og segja frá

Svan­hvít segir að þau hafi ekki verið búin að til­kynna þungunina form­lega, en að þau hafi verið búin að segja sínum nánustu frá henni.

„Það vissu þetta allir og það þurfti því að hringja í alla, ömmur og afa, og láta vita. Því lengri sem með­ganga er gengin því fleirum er farið að þykja vænt um þessa hug­mynd um barnið sem er að koma. Það var erfitt að hringja og segja frá,“ segir Svan­hvít.

Hún segir að fólk hafi sýnt henni mikinn skilning en hafi kannski ekki vitað hvernig það átti að bregðast við. Hún segir að sér hafi aldrei þótt erfitt að tala um þetta við fólk og eigi góða að sem hún geti talað við. Manninn sinn, góðar vin­konur og fjöl­skyldu­með­limi.

„En ég hugsa um þetta oft á dag, alla daga. Þetta er auð­vitað mjög sorg­legt og ekki mjög upp­lífgandi um­ræðu­efni að tala um barnið eða fóstrið sem maður missti. Þegar maður hitti fólk er maður í góðu tómi og það á að vera gaman. Mig langar miklu oftar að tala um þetta en ég kann hrein­lega við að gera,“ segir Svan­hvít.

Hún segir að á meðan þessu stóð hafi hún mikið hugsað til fólks sem missir á fyrstu með­göngu.

„Það gefur manni svo mikið að eiga þó eitt barn fyrir. Að vita að maður getur þetta. Það er rosa­lega sterk til­finning að langa að verða for­eldri. Það er líka mjög sterk löngun að eignast annað barn og stækka fjöl­skylduna. En að eignast fyrsta barnið, það er barnið sem gerir þig að for­eldri. Við misstum okkar barn en vorum samt á­fram for­eldrar,“ segir Svan­hvít.

Hjálpaði mikið að lesa reynslusögur annarra kvenna

Hún segir að ef­laust þyrfti hún að fara betur í gegnum það sem gerðist. Hún hafi grátið ofsa­lega mikið fyrstu dagana en það hafi smám saman minnkað. Hún segir að þegar hún ræði þetta þá fái hún oft að heyra um missi annarra kvenna, sem hún hafi ekki vitað af áður.

„Þær segja kannski að það hafi verið öðru­vísi fyrr, en mér finnst það ekki skipta neinu máli. Missir er missir og auð­vitað verður það öðru­vísi þegar maður er svo langt genginn, en um leið og þig langar í barn, eða átt von á barni, þá ertu komin lengra í huganum. Mér finnst það já­kvætt, að deila því,“ segir Svan­hvít.

Hún segir að það hafi hjálpað henni mikið í gegnum sorgina að hugsa til þess að hún þyrfti, burt­séð frá öllu, að halda á­fram því að dóttir hennar þyrfti á henni að halda. Það hafi einnig hjálpað henni að lesa reynslu­sögur annarra.

„Þó að það sé ömur­legt að fólk gangi í gegnum þetta, þá er mikill styrkur í því að lesa reynslu­sögur fólks sem gengur í gegnum svona, til að vita að maður kemst í gegnum þetta. Þetta er ekki ó­yfir­stígan­legt hvernig maður á að takast á við alla þessa sorg. En það er bara einn dagur í einu og maður þarf bara að leyfa sér að syrgja,“ segir Svan­hvít.

Hrafnhildur hefur fjórum sinnum misst fóstur á fyrsta þriðjungi meðgöngu.
Fréttablaðið/Anton Brink

Hrafnhildur Sverrisdóttir: „Á bak við hvern missi er barn“

„Ég missti fyrst fóstur í apríl 2012. Í annað skiptið misstum við í desember 2013, í þriðja sinn í desember 2014 og í fjórða sinn haustið 2016. Í öll skiptin misstum við á fyrsta þriðjungi með­göngu. Ég var þó komin á elleftu viku með­göngu árið 2012 þegar ég fór í skoðun þar sem í ljós kom að það var enginn hjart­sláttur lengur. Þá var talið að hjartað í litla krílinu hefði lík­lega hætt að slá í níundu viku en ég vissi í raun ekkert fyrr en ég fór í skoðun,“ segir Hrafn­hildur.

Þegar Hrafn­hildur missti í fyrsta sinn bjó hún tíma­bundið í Pakistan við störf og hafði farið í snemm­sónar þar á áttundu viku.
„Þar kom allt vel út og blússandi fínn og góður hjart­sláttur og í raun ekkert sem gaf til kynna að eitt­hvað væri að eða gæti hugsan­lega komið fyrir. Ég fékk þó að heyra hjá lækninum að ég væri orðin „svo gömul“, enda kannski ekki eins al­gengt þar og hér að konur eignist börn um eða eftir fer­tugt,“ segir Hrafn­hildur.

Þegar hún kom til Ís­lands tæpum þremur vikum síðar fór hún til kven­sjúk­dóma­læknis til að tryggja að allt væri í lagi. Þar kom í ljós að hjart­sláttur var ekki lengur til staðar og því um ó­út­skýrt fóstur­lát að ræða. Í annað skiptið kom fóstur­látið í ljós í snemm­sónar en í þriðja og fjórða skiptið byrjaði að blæða.

Hrafn­hildur segir að þeim Þor­valdi, manni hennar, hafi liðið hræði­lega í öll þessi skipti.
„Þó að okkur hafi grunað að eitt­hvað væri að þá vonuðum við að sjálf­sögðu að við hefðum rangt fyrir okkur og að þarna inni væri töffari sem væri bara að láta hafa dá­lítið fyrir sér alveg frá byrjun. En svo tekur biðin á sónar­bekknum við þar sem maður liggur og bíður milli vonar og ótta með ótal hugsanir í kollinum á meðan læknirinn situr þögull með sónar­tækið og skoðar. Og svo kemur bomban: „Því miður þá er enginn hjart­sláttur í þessu fóstri”,“ segir Hrafn­hildur.

Hún segir að hún hafi í öll skiptin orðið veru­lega sorg­mædd og upp­lifað gríðar­leg von­brigði.
„Í hvert skipti spurði ég mig að því hvort ég hefði gert eitt­hvað rangt. Hvort ég hefði átt að slaka meira á, vinna minna, borða hollara, ekki drekka neitt kaffi, eða þá hvort eitt­hvað væri líkam­lega að hjá mér. Hugurinn fer á flug með alls konar mögu­legar út­skýringar,“ segir Hrafn­hildur.

Hún segir að læknar hafi, eftir bestu getu, reynt að út­skýra fyrir henni að fóstur­látin væru ekki henni að kenna. Þau væru ó­út­skýrð, al­geng, og hrein­lega gangur lífsins. Þau hafi þó vitað að aldur hennar gæti spilað eitt­hvað hlut­verk.

„Mér fannst þetta samt svo ó­sann­gjarnt að við skyldum missa fóstur í­trekað á meðan margir aðrir fara í gegnum ó­léttu­ferlið, að því er virðist, eins og að drekka vatn. Vonin, sem maður er hrein­lega kominn með í fangið með já­kvæðri ó­léttu­prufu, deyr á núll einni,“ segir Hrafn­hildur.

Hún segir að í hvert skipti sem hún varð ó­létt hafi hún sagt við Þor­vald að nú tækist það. Þau myndu ekki missa eina ferðina enn.

„En svo gerist það og okkur fannst það alltaf jafn sárt. Ég veit að við erum ekkert eins­dæmi þegar kemur að fjölda fóstur­láta og ég veit að margir hafa misst oftar en við. En ég held að þessi upp­lifun sé alltaf erfið hvort sem um er að ræða eitt skipti eða tíu,“ segir Hrafn­hildur.

„Mér hefur alltaf þótt hjálpa að ræða um reynsluna okkar og mér hefur í flestum til­fellum þótt ég geta það, sér­stak­lega við mína nánustu og við mínar góður vin­konur, stelpurnar. Mér finnst gott að fólkið mitt viti. Mér finnst vera á­kveðinn styrkur í því,“ segir Hrafn­hildur.

Ávallt verið mikilvægt að deila fréttunum

Hrafn­hildur segir að í öll skipti sem hún varð ó­létt hafi hún deilt fréttunum með sínum nánustu. Hún segir að það hafi á­vallt verið henni mikil­vægt, því við fóstur­missinn, hafi það verið sama fólkið sem stóð við hlið hennar.

„Mér hefur alltaf þótt hjálpa að ræða um reynsluna okkar og mér hefur í flestum til­fellum þótt ég geta það, sér­stak­lega við mína nánustu og við mínar góður vin­konur, stelpurnar. Mér finnst gott að fólkið mitt viti. Mér finnst vera á­kveðinn styrkur í því,“ segir Hrafn­hildur.

Hún segir að þegar sam­ræður við annað fólk hafi leiðst á þessa braut þá hafi hún stundum sagt frá þeirra reynslu. Oft hafi komið í ljós að aðrir hafa sömu reynslu.

„Mér finnst styrkur í því þó ég óski engum þess að ganga í gegnum fóstur­missi, hvað þá í­trekað. Fóstur­missir er það al­gengur að mér finnst eigin­lega galið að ræða hann ekki. Þetta er auð­vitað mjög við­kvæmt mál­efni og hver og einn velur að sjálf­sögðu þá leið sem hentar en ég held að opin um­ræða sé af hinu góða og hjálpi frekar en hitt að takast á við svona upp­lifun,“ segir Hrafn­hildur.

Súrrealískt að bíða í fimm daga með látið fóstur inni í sér

Hrafn­hildur hefur tvisvar farið á kvenna­deild Land­spítalans í að­gerð vegna fóstur­missis. Í hin skiptin sá líkaminn sjálfur um „hreinsunina“. Hún segir að í fyrra skiptið hafi við­mótið á spítalanum verið gott og allt gengið vel. Hún hafi þó þurft að bíða heila páska­helgi eftir að­gerð.

„Að bíða með látið fóstur inni í mér í fimm daga, sem var frekar súrrealísk upp­lifun,“ segir Hrafn­hildur.

Þegar hún missti í annað skipti átti líkaminn að sjá sjálfur um hreinsun. Hrafn­hildi hafði þó verið sagt að hafa sam­band við kvenna­deildina ef blæðingin yrði mikil.

„Ég varð mjög verkjuð nóttina sem allt fór af stað og það blæddi mjög mikið og við urðum í raun frekar skelkuð. Maðurinn minn endaði á því að hringja niður á kvenna­deild þar sem okkur leist ekki á blikuna. Hann náði aldrei sam­bandi við deildina, jafn­vel ekki þó okkur væri gefið sam­band í gegnum aðal­síma spítalans, eða ekki fyrr en kl. 8 um morguninn. Þá kom í ljós að gleymst hafði að stilla vakt­síma deildarinnar og því hafði væntan­lega enginn náð að hringja inn með neyðar­til­felli þá nótt. Þetta fór þó allt saman vel í okkar til­felli,“ segir Hrafn­hildur.

Hún segir að í þriðja sinn sem hún missti fóstur, í desember 2014, hafi henni verið boðið að koma í skoðun. Venjan eigi að vera að við þriðja missi fari konan í að­gerð svo hægt sé að rann­saka fóstrið og at­huga hvort um ein­hvers konar fóstur­galla er að ræða.

„Læknirinn sem stað­festi fóstur­látið, sem var sjálf sjáan­lega ó­létt, vildi ekki senda mig í að­gerð og þá ekki láta rann­saka fóstrið. Ég man að ég lá skjálfandi á bekknum og skildi ekki hvernig þessi ó­létti læknir gat horft á mig og sagt mér að fara heim með pillur til að klára málið, sem þýddi einnig að fóstrið færi í klósettið og yrði aldrei rann­sakað. Mér fannst það ó­mann­úð­legt,“ segir Hrafn­hildur.

Hún segir að „með tárum og titringi“ hafi þau þó fengið að­gerðina sam­þykkta og fóstrið rann­sakað. Þar kom í ljós al­gengur fóstur­galli, þrí­litna, sem þeim var tjáð að tengdist ekki endi­lega aldri þeirra. Fóstur með slíkan galla deyi flest í móður­kviði eða fljót­lega eftir fæðingu, ef þau lifa hana af.

„Ég man að hjúkrunar­fræðingurinn sem að­stoðaði lækninn sagði við okkur áður en við fórum frá þeim að við gætum nú bara í­hugað gjafa­egg ef það gengi svona illa hjá okkur að halda fóstri. Við vitum að hún meinti vel, en okkur fannst þetta samt sem áður mjög ó­við­eig­andi at­huga­semd í ljósi að­stæðna, fyrir utan það að við vorum ekki að leita til hennar eftir frjó­semis­úr­ræðum,“ segir Hrafn­hildur.

Missir vonina við hvern missi

Hrafn­hildur að segir að það sem henni sé minnis­stæðast varðandi fóstur­látin sé hvernig maður missir vonina meir og meir við hvern missi.

„Í milli­tíðinni horfði ég á ó­léttu konurnar versla í Ikea og fólkið með barna­vagnana og kerrur í Kringlunni og hugsaði um hvað þetta væri ó­sann­gjarnt. En á sama tíma veit maður ekkert hvað allt þetta barna­fólk er svo sjálft búið að ganga í gegnum, en það er pínu erfitt að reyna að minna sig á það þegar maður er al­gjör­lega í sínum eigin heimi að reyna að búa til barn,“ segir Hrafn­hildur.
Hún segir að draumur þeirra um að eignast barn hafi loks ræst í ágúst 2018 þegar litla stelpan þeirra fæddist. Það tók þau alls fimm ár að búa hana til. Hún segir að fóstur­látin hafi haft mikil á­hrif á líðan hennar á með­göngu.

„Þó að þungunin hafi í sjálfu sér gengið vel og án al­var­legra vand­kvæða, þá var ég mjög ó­örugg alla með­gönguna þar sem ég var alltaf hrædd um að ég myndi missa fóstrið. Mér skilst að slík líðan sé mjög al­geng hjá konum sem hafa misst fóstur. Mér leið reyndar ör­lítið betur eftir að ég fór að finna reglu­legar hreyfingar en hugsunin var samt til staðar á hverjum einasta degi alveg fram að fæðingu,“ segir Hrafn­hildur.

Hrafn­hildur segir að lokum að ekki megi gleyma því í um­ræðu um fóstur­missi að á bak við hvern missi er barn. Hún og maður hennar hugsi stundum til þess að nú gætu þau átt börn sem væru orðin „þetta og þetta gömul“.

Samfélagslegur þrýstingur meiri á Íslandi

Hún segir að sam­fé­lags­legur þrýstingur á Ís­landi til barn­eigna sé eins­dæmi. Hún hafi búið er­lendis og hafi aldrei upp­lifað eins mikla sam­fé­lags­lega pressu um að barn­eignir séu norm.

„Við Ís­lendingar erum enn mjög föst í þeirri hugsun að það að eignast börn sé normið. Annað sé bara skrítið. Þetta hef ég ekki upp­lifað í eins miklum mæli er­lendis þar sem fólk var ekkert sér­stak­lega að pæla í því af hverju ég væri ekki í sam­bandi eða hvort ég ætti börn eða ætlaði að eignast börn. Ég held að við hér á Ís­landi mættum að­eins létta á þessari sam­fé­lags­legu pressu því við erum á sama tíma nokkuð góð í því að fagna fjöl­breyti­leikanum,“ segir Hrafn­hildur að lokum.

„Árið 1999 fæddi ég and­vana barn í þrí­tugustu viku, dreng sem var tæpar fjórar merkur. Hann var jarðaður og fékk nafnið Brynjar Örn,“ segir Helga sem hefur bæði fætt andvana barn og misst fóstur.
Fréttablaðið/Anton Brink

Mikil­vægt að fólk viti að hún hafi gengið með tvö börn

Helga Finn­boga­dóttir er 39 ára gömul. Hún hefur bæði misst fóstur og fætt andvana barn. Hún á þó einn dreng sem er 18 ára í dag.

„Árið 1999 fæddi ég and­vana barn í þrí­tugustu viku, dreng sem var tæpar fjórar merkur. Hann var jarðaður og fékk nafnið Brynjar Örn,“ segir Helga.

Hún segir að hún hafi svo orðið þunguð árið 2015 en það hafi reynst utan­legs­fóstur sem hafi þurft að fjar­lægja. Eftir að­gerðina var annar eggja­stokkurinn stíflaður og ó­virkur. Hún og maðurinn hennar hafa reynt að eignast barn eftir það, en það hefur gengið illa. Þau hafa farið í sex upp­setningar hjá Livio sem hafa reynt mikið á þau bæði. Að­eins ein upp­setning varð að fóstri, sem hún þó missti síðar, fyrr á þessu ári.

Helga segir að í fyrra skiptið, þegar hún var gengin 30 vikur, hafi hana ekki grunað neitt.

„Allt hafði gengið svo vel, en svo fór ég að finna seyðing, eins og túr­verki, sem á­gerðust,“ segir Helga.

Hún segir að móðir hennar hafi fylgt henni á spítalann þar sem, eftir skoðun, henni var tjáð að það hefði ekki fundist hjart­sláttur.

„Ég fékk eðli­lega sjokk og eftir það er ferlið í móðu. Sem betur fer var yndis­leg ljós­móðir á staðnum sem hélt utan um okkur og út­skýrði vel allt sem þá fór í gang. Ég fékk að fara heim, fara í bað og undir­búa mig fyrir gang­setningu. Fór svo á spítalann tveimur tímum seinna þar sem ég fór í gang­setningu til að fæða barnið. Eftir að ég fékk lyfja­gjöf þá fékk ég fljótt hríðir. Tíu tímum seinna fæddi ég and­vana dreng,“ segir Helga.

Hún segir að hann hafi um leið verið tekinn og hún hafi ekki fengið að sjá hann fyrr en eftir að hann var þrifinn og settur í föt.

„Ég var í hálf­gerðri leiðslu þegar fæðingin var í gangi og ég var alltaf að vona að hann væri á lífi en það auð­vitað heldur maður alltaf í vonina. Þegar komið var með drenginn til mín, þrifinn og í fötum og ég horfði á hann í fyrsta sinn þá brá mér mikið og mér leið mjög illa, enda leit hann ekki vel út og ég vissi í raun ekki við hverju ég ætti að búast,“ segir Helga.

Gott að tala um missinn

Hún segir að sér finnist gott að tala um missinn og finnst mikil­vægt að fólk viti að hún hafi gengið með tvö börn. Hún hafi í bæði skiptin verið búin að segja sínum nánustu frá.

„Ég hef fundið þörf hjá mér að tala um drenginn sem ég missti 1999 enda kannski ekki unnið al­menni­lega úr þeirri lífs­reynslu og þá er gott að tala um það,“ segir Helga.
Helga segir að upp­lifun hennar á spítalanum hafi verið góð í fyrra skiptið, en ekki sér­stak­lega góð þegar hún missti fóstur nú á þessu ári. Hún hafi þurft að fara á með­göngu­deild því hún hafi verið komin fram yfir 12. viku, en þar séu einnig konur sem eru búnar að eiga. Tveir læknar hafi skoðað hana og henni og manninum hennar til­kynnt að fóstrið væri látið.

„Læknirinn lagði hönd sína á mig og sagði: „Ég sam­hryggist ykkur.” Þá auð­vitað braust út mikil sorg hjá okkur hjónum, enda búið að hafa mikið fyrir því að eignast barn. Næstu vikur voru erfiðar því við héldum að loksins væri þetta að ganga eftir allar þessar með­ferðir,“ segir Helga.

Hún segir að fóstur­missirinn hafi haft mikil á­hrif á hana.

„Ég er alltaf hrædd um að það sé ekki í lagi og er mjög stressuð,“ segir Helga.