Sunna Kristín Hilmars­dóttir og Tómas Þór Þórðar­son eru veður­teppt í Kaup­manna­höfn en vonast til þess að komast heim í kvöld.

„Ég fékk þessa frá­bæru hug­mynd fyrir svona mánuði síðan. Tommi er búinn að vera í HM-fríi og ég er í milli­bils­á­standi áður en ég fer í aðra stofn­frumu­með­ferð,“ segir Sunna en hún er eins og stendur í krabba­meins­með­ferð.

„Ég keypti þessa ferð mjög „spontant“. Að­ventu­ferð til Köben. Við fórum seinni part á föstu­dag og vöknuðum svo á laugar­dag og sáum að allt var í rugli heima. Svo hefur bara allt verið í rugli síðan,“ segir Sunna Kristín en þau áttu flug heim í gær­kvöldi sem breyttist í flug í kvöld.

„Það er enn á á­ætlun og við höfum fengið skila­boð um að það hafi verið skipt um vél,“ segir hún og að hún hafi ekki heyrt neitt annað en að það eigi að standast.

Hún segir að sam­skiptin við Icelandair hafi verið tak­mörkuð og að þau hafi í raun aldrei fengið SMS um að fluginu hafi verið af­lýst heldur hafi þau lesið það á heima­síðu Isavia. Þau hafi reynt að hringja en ekki náð í gegn.

„Ég hringdi í gær í Icelandair og þá tók við sím­svari sem sagði að fólk ætti helst ekki að hringja inn ef það ætti ekki flug næstu fimm daga og samt tekið fram að það væri flogið sam­kvæmt á­ætlun. Svo skelltist á. Það var ekkert „hold“ eða neitt. Ég vissi að það væri ekki flogið sam­kvæmt á­ætlun og þetta var því ekki besta upp­lýsinga­gjöfin og maður hugsaði alveg með sér hvað fólk er að gera sem eru út­lendingar sem vita ekki af þessu. Þetta er svo furðu­legt.“

Ekki einu Íslendingarnir á hótelinu

Spurð hvernig hafi gengið að fá fram­lengda dvöl segir hún að þau hafi skipt um hótel í gær og að það hafi ekki verið vanda­mál.

„Við spurðum í gær­kvöldi hvort þau væru laus her­bergi í kvöld og þá sagði af­greiðslu­maðurinn mér að við værum ekki einu Ís­lendingarnir sem eru föst á hótelinu. En hótelið er mjög fínt. Það heitir Skt. Petri og hér eru einnig for­sætis­ráð­herra og fyrir­liði karla­liðs Víkings í fót­bolta,“ segir Sunna Kristín.

Spurð hvort þau séu stressuð að komast heim fyrir jólin segir Sunna að það sé annars konar stress sem hún finni fyrir en hún missti af lyfja­gjöf í morgun og á við­tal við lækni á fimmtu­dag.

„Ég er stressaðri fyrir því en jólunum en við erum reyndar í fyrsta sinn að halda jólin heima hjá okkur og að fá tengda­for­eldra mína í heim­sókn. En ég held að þetta reddist alltaf. En ég er ekki með nóg af lyfjum með mér þannig ég þarf að komast heim í seinasta lagi á morgun,“ segir Sunna, létt, en þó kvíðin.