Sunna Kristín Hilmarsdóttir og Tómas Þór Þórðarson eru veðurteppt í Kaupmannahöfn en vonast til þess að komast heim í kvöld.
„Ég fékk þessa frábæru hugmynd fyrir svona mánuði síðan. Tommi er búinn að vera í HM-fríi og ég er í millibilsástandi áður en ég fer í aðra stofnfrumumeðferð,“ segir Sunna en hún er eins og stendur í krabbameinsmeðferð.
„Ég keypti þessa ferð mjög „spontant“. Aðventuferð til Köben. Við fórum seinni part á föstudag og vöknuðum svo á laugardag og sáum að allt var í rugli heima. Svo hefur bara allt verið í rugli síðan,“ segir Sunna Kristín en þau áttu flug heim í gærkvöldi sem breyttist í flug í kvöld.
„Það er enn á áætlun og við höfum fengið skilaboð um að það hafi verið skipt um vél,“ segir hún og að hún hafi ekki heyrt neitt annað en að það eigi að standast.
Hún segir að samskiptin við Icelandair hafi verið takmörkuð og að þau hafi í raun aldrei fengið SMS um að fluginu hafi verið aflýst heldur hafi þau lesið það á heimasíðu Isavia. Þau hafi reynt að hringja en ekki náð í gegn.
„Ég hringdi í gær í Icelandair og þá tók við símsvari sem sagði að fólk ætti helst ekki að hringja inn ef það ætti ekki flug næstu fimm daga og samt tekið fram að það væri flogið samkvæmt áætlun. Svo skelltist á. Það var ekkert „hold“ eða neitt. Ég vissi að það væri ekki flogið samkvæmt áætlun og þetta var því ekki besta upplýsingagjöfin og maður hugsaði alveg með sér hvað fólk er að gera sem eru útlendingar sem vita ekki af þessu. Þetta er svo furðulegt.“
Ekki einu Íslendingarnir á hótelinu
Spurð hvernig hafi gengið að fá framlengda dvöl segir hún að þau hafi skipt um hótel í gær og að það hafi ekki verið vandamál.
„Við spurðum í gærkvöldi hvort þau væru laus herbergi í kvöld og þá sagði afgreiðslumaðurinn mér að við værum ekki einu Íslendingarnir sem eru föst á hótelinu. En hótelið er mjög fínt. Það heitir Skt. Petri og hér eru einnig forsætisráðherra og fyrirliði karlaliðs Víkings í fótbolta,“ segir Sunna Kristín.
Spurð hvort þau séu stressuð að komast heim fyrir jólin segir Sunna að það sé annars konar stress sem hún finni fyrir en hún missti af lyfjagjöf í morgun og á viðtal við lækni á fimmtudag.
„Ég er stressaðri fyrir því en jólunum en við erum reyndar í fyrsta sinn að halda jólin heima hjá okkur og að fá tengdaforeldra mína í heimsókn. En ég held að þetta reddist alltaf. En ég er ekki með nóg af lyfjum með mér þannig ég þarf að komast heim í seinasta lagi á morgun,“ segir Sunna, létt, en þó kvíðin.