Sonia Nicol­son var á mót­mælun í ráð­húsin Reykja­víkur í dag vegna úr­ræða­leysis í dag­vistunar­málum í dag en sonur hennar er tíu mánaða. Hann er ekki enn kominn með neina dag­vistun en hún býr í hverfi 108.

„Maðurinn minn er farinn aftur að vinna en ég er að reyna að halda öllum boltum á lofti á heimilinu á meðan,“ segir Sonia og að þess vegna hafi hún mætt á mót­mælin.

„Það var það sama með dóttur mína. Hún er fjögurra ára í dag og er á leik­skóla en hún fékk ekki inn fyrr en hún var rúm­lega tveggja ára. Við reyndum að finna dag­mömmur en mér fannst það erfitt því ég er frá Skot­landi og vissi ekki al­menni­lega hvar þær gera. Það er líka mjög dýrt fyrir það sem það er,“ segir Sonia og að hún hafi farið aftur að vinna að­eins til að ná að vinna fyrir því sem dag­mannan kostaði.

„En það þýddi að ég missti bara af dýr­mætum tíma með barninu mínu og ég veit að leik­skólinn gerir svo miklu meira en dag­mamma og því myndi ég auð­vitað kjósa það frekar,“ segir Sonia.

Hún segir það sorg­legt að á þeim tíma frá því að hún átti sitt síðasta barn hafi lítið breyst og vonar að það komist skrið á málin fljót­lega svo barnið hennar fái pláss sem fyrst.

Borgar­stjóri sagði á fundinum að beðið væri gagna frá skóla- og frí­stunda­sviði og að hann vonaðist til þess að hafa skýrari svör fyrir for­eldra í næstu viku um pláss fyrir börnin þeirra.