Vegna myglu og rakaskemmda verður Fossvogsskóli rýmdur að hluta 18. mars næstkomandi. Þá hefjast framkvæmdir vegna skemmdanna. Þetta staðfestir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, í samtali við Fréttablaðið. Fundur með foreldrum barna í skólanum, fulltrúum skólayfirvalda og borgarinnar fór fram skólanum í kvöld. Nokkur ólga var á fundinum, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Helgi segir að borgin hafi verið að fá niðurstöður úttektar Verkís í hendurnar og því sé ekki búið að skipuleggja í þaula hvernig staðið verður að málum. Hann segir þó að niðurstöður sýni að úrbóta sé þörf. „Meðan þær standa yfir þá er eðlilega best að börnin verði ekki í skólanum,“ segir hann um þá hluta skólans sem þarf að gera úrbætur á. „Við vorum bara að fá niðurstöðurnar og erum að vinna með umhverfis og skipulagssviði borgarinnar að skipuleggja þetta.“

Sjá einnig: Ráðist í stóra úttekt á myglu í Fossvogsskóla

Þeim stöðum þar sem raki og mygla hefur greinst verður lokað á meðan framkvæmdir standa yfir. Helgi segir að í einni álmunni þurfi að skipta um þak og það verði gert í sumar.

Spurður hversu stór hluti skólans verði lokaður á meðan viðgerðum stendur svarar Helgi því til að það liggi ekki alveg ljóst fyrir. Af orðum hans má skilja að það geti verið helmingur bekkjanna. Hann segir að verið sé að skoða húsnæði í nágrenninu og nefnir Víkina og Bústaðakirkju sem möguleika.

„Foreldrum var eðlilega brugðið,“ segir hann, aðspurður um fundinn í kvöld. Skólafólkinu hafi líka verið brugðið að sjá að umfang vandans væri með þessum hætti. „Menn vissu að hér væru lek þök og eitthvað í þeim dúr en menn voru ekki búnir að sjá fyrir að fara þyrfti í svona framkvæmdir. Fólk er brugðið, eðlilega,“ segir hann.

Spurður hvort veikindi, sem rekja megi til myglu og raka hafi gert vart við sig í skólanum, svarar Helgi því játandi. Nokkur börn hafi sýnt ofnæmisviðbrögð og liðið illa. Árvökult foreldri, sem fylgdist náið með barni sínu, reyndist að sögn Helga afar hjálplegt við greiningu á vandanum og hvar hann væri fyrir hendi. 

Hann segir að vilji borgarinnar sé að húsnæðið verði orðið heilsusamlegt og komið í lag sem allra fyrst. „Við erum að vinna í skipulagi framkvæmda í húsnæðinu og tilhögun skólastarfsins.“

Foreldrar eiga von á bréfi vegna málsins í kvöld.