Koma á nýrri sundlaug fyrir í miðjum Fossvogsdal. Fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg að setja eigi upp samkeppni um verkefnið og að í lýsingu á verkefninu sé að finna staðsetningu, upplýsingar um fyrirhugaða notkun og kröfur um efnisval, gæði, útlit og annað er máli skiptir fyrir hönnunarsamkeppni um útlit laugarinnar.
Í tilkynningunni kemur fram að laugin mun nýta einstaka staðsetningu á fjölsóttu útivistarsvæði í fallegu umhverfi og að til þess að styðja við græn markmið verður ekki gert ráð fyrir almennum bílastæðum við laugina heldur eingöngu stæðum fyrir hreyfihamlaða, aðföng og neyðarbíla.
Sundlaugin á þannig ekki að auka bílaumferð um íbúðahverfin sitt hvoru megin við dalinn.
Í tilkynningu kemur fram að nýja laugin eigi að henta fyrir almenningssund, sundkennslu, sundæfingar, námskeið, sundleikfimi, og fleira.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs undirrituðu í mars árið 2021 viljayfirlýsingu þess efnis að halda skyldi sameiginlega hönnunarsamkeppni um Fossvogslaug í samvinnu við Arkitektafélag Ísland en samkvæmt tilkynningu eru bæjarfélögin sammála um að ný laug verði við miðbik Fossvogsdals, í göngufæri frá grunnskólum dalsins, Snælandsskóla og Fossvogsskóla.
Sveitarfélögin munu nú hefjast handa við næstu skref við undirbúning samkeppni um hönnun laugarinnar í samvinnu við Arkitektafélag Íslands.
