„Þetta eru bara undan­brögð og undan­skot,“ segir Pétur Guð­munds­son hjá Í­þöku fast­eigna­fé­lagi, sem á Þórunnar­tún 1 þar sem Foss­hótel Reykja­vík er til húsa.

Hótelið vill að­eins greiða helming 440 milljóna króna húsa­leigu fyrir sex mánaða tíma­bil í fyrra, en Pétur bendir á að á sama tíma­bili hafi eignin verið endur­leigð til ríkisins sem sótt­varna­hótel fyrir 525 milljónir og hótelið haft tekjur af veitinga­sölu að auki.

Móður­fé­lag Foss­hótels Reykja­víkur, Ís­lands­hótel, samdi í fyrra við Sjúkra­tryggingar Ís­lands (SÍ) um að leigja út hús­næði Foss­hótels í Þórunnar­túni 1 undir sótt­varna­hótel. Foss­hótel/Ís­lands­hótel hafa neitað að greiða Í­þöku fulla leigu fyrir tíma­bilið eftir að kóróna­veiru­far­aldurinn hófst og borið við for­sendu­bresti.

Í héraðs­dómi var dæmt að hótel­fé­lagið ætti að greiða Í­þöku 66,7 prósent af um­saminni leigu fyrir tíma­bilið 1. apríl 2020 til 31. mars 2021. Það mál bíður nú úr­lausnar Lands­réttar. Deilan um tíma­bilið 1. apríl til 30. septem­ber 2021 hefur ekki ratað til dóm­stóla.

Í­þaka, sem eig­andi Þórunnar­túns 1, krafðist þess að fá að­gang að samningnum sem gerður var um fram­leiguna til SÍ. Hótelið og SÍ höfnuðu því. Úr­skurðar­nefnd upp­lýsinga­mála lagði hins vegar fyrir SÍ að af­henda Í­þöku samninginn.

Sam­kvæmt samningnum var um­samin leiga 2.867.400 krónur á dag fyrir þrjú hundruð her­bergi, óháð því hversu mörg her­bergi yrðu nýtt. Að auki var kveðið á um það að Sjúkra­tryggingar keyptu mat af hótelinu fyrir 4.400 krónur á gest í fullu fæði og 3.000 fyrir hálft fæði.

Leigu­tíminn stóð frá 1. apríl í fyrra og út septem­ber, eða í sam­tals 183 daga, að sögn Péturs. Sam­kvæmt því greiddi ríkið hótelinu 524.734.200 krónur alls í leigu auk fæðis­kostnaðar, sem Pétur telur hafa fært hótelinu að minnsta kosti 300 milljóna króna tekjur til við­bótar. Á sama tíma­bili átti hótelið að greiða Í­þöku um 440 milljónir í leigu sam­kvæmt samningi fyrir­tækjanna. Pétur segir hótel­keðjuna að­eins hafa viljað greiða helminginn.

„Þeir eru að fá yfir átta hundruð milljónir frá ríkinu fyrir leigu á hótelinu og veitingar en borga okkur bara eitt­hvað ríf­lega tvö hundruð milljónir,“ segir Pétur, ekki sáttur.

Í minnis­blaði sem lagt var fram í fyrr­nefndu dóms­máli vegna deilna Í­þöku og Foss­hótela um leigu­greiðslur fram til 31. mars í fyrra, sagði að endur­skoðanda væri ekki kunnugt um annað en að Ís­lands­hótel hf. og dóttur­fé­lög þess væru í skilum með allar samnings­bundnar skuld­bindingar gagn­vart lánar­drottnum „með þeirri undan­tekningu er snúi að leigu­kröfu sóknar­­aðila“. Þannig hafi verið staðið í skilum við alla nema Í­þöku.

„Þeir voru að borga öllum nema okkur og það má ekki ef þú ert í greiðslu­skjóli,“ segir Pétur, og vísar til þess að um sama leyti og Foss­hótel var leigt til ríkisins sem sótt­varna­hótel hafi hótel­keðjan komist í greiðslu­skjól frá kröfu­höfum.

Ekki náðist í Davíð Þór Ólafs­son fram­kvæmda­stjóra Ís­lands­hótela í gær.