Augu sjást víða í íslenskri náttúru, sérstaklega við goshveri eins og Geysi og Strokk eða þar sem jarðhiti hefur brætt göt í jökulís eins og í Kverkfjöllum og á Bárðarbungu. Ekkert þessara augna slær þó út snotra lind skammt frá Dómadalsleið að Fjallabaki og kölluð hefur verið Rauðauga. Nafnið er vel til fundið því í tæru vatninu sést vel í rauðleitan augnbotninn.

Umhverfi Rauðauga er ekki síður magnað en augað sjálft. Úr því rennur lindá, Rauðufossakvísl, en rauðbrúnn botninn myndar skemmtilegar andstæður við ljósgrænan mosagróðurinn og svarta sandana í kring. Þetta er keðja fossa og fimm kílómetrum neðar er sá stærsti, sem heitir Rauðufossar og sést þegar ekið er inn í Landmannalaugar eftir Landmannaleið í gegnum Dómadal. Af henni liggur jeppavegur, Krakatindsleið, og eftir stutta keyrslu er við hana lítið bílastæði. Þar hefja flestir tæplega klukkustundar göngu að Rauðufossum, en síðan má halda áfram göngunni upp hlíðar vestan megin Rauðufossakvíslar alla leið að Rauðauga.

Rauðauga minnir á glóðarauga – augnbotninn er rauður og miðjan minnir á augastein. Mynd/Ólafur Örn Haraldsson

Önnur skemmtileg gönguleið liggur að sunnanverðu frá Dalakofa. Er þá gengið meðfram reisulegum líparítstöpum sem heita Rauðufossafjöll og þaðan að Rauðauga. Þarna býðst öræfakyrrð eins og hún gerist best og tekur gangan fram og til baka daginn. Þegar komið er að Rauðauga og Rauðufossakvísl er afar mikilvægt að fylgja stígum og traðka ekki á viðkvæmum gróðri sem þarna er. Ganga má meðfram ánni niður eftir Rauðufossagili þar til áin steypist fram af snarbröttu stáli sem áðurnefndir Rauðufossar. Þegar gengið er aftur að Dalakofa er upplagt að ganga eystri leið til baka, til dæmis upp á Svartakamb (1005 m) og niður eftir hryggjunum ofan í Vestur-Reykjadal. Þarna er ógrynni fallegra gufuhvera og í botni sundurskorinna líparítgilja renna lækir og ár.

Efst á Svartakambi sést vel til Pokahryggs og Hrafntinnuskers en einnig að Laufafelli og Löðmundi. Tilvalið er að gista í upphituðum skála Útivistar, Dalakofa, eða slá þar upp tjaldi. Skammt frá skálanum, er frumstæð náttúrulaug þar sem hægt er að skola af sér mesta göngurykið og er þá vaðið yfir Blautukvísl. Dalakofa má nýta í fleiri göngur, t.d. á Laufafell eða að Laufahrauni en einnig er stutt í Rauðufossafjöll. Ef ekið er til baka frá Dalakofa inn á Dómadalsleið blasa við kirkjulaga Krakatindar en af þeim er sérlega fallegt útsýni til Heklu.

Umhverfi Rauðauga og Rauðufossa­kvíslar er stórkostlegt en gróðurinn afar viðkvæmur. Þess vegna er mikilvægt að fylgja stígum og sumir taka jafnvel af sér gönguskóna til að hlífa gróðrinum. Mynd/TG