Eignastýring Fossa flutti starfsemi eignastýringar hjá verðbréfafyrirtækinu í nýtt húsnæði sem gengur undir nafninu Næpan í byrjun októbermánuðar. Hjónin Aðalheiður Magnúsdóttir, sem situr í stjórn Fossa ehf og Sigurbjörn Þorkelsson, sem er stjórnarformaður bankans eiga húsið.

Næpan er fasteign sem staðsett er á Skálholtsstíg 7 í Reykjavík en um er að ræða sögufræga byggingu, steinsnar frá höfuðstöðvum Fossa við Fríkirkjuveg. Fast­eign­in hef­ur verið í eigu Fossa ehf. síðan árið 2019.

„Þetta er afskaplega fallegt hús og við erum mjög ánægð þarna. Eignastýring Fossa er í Næpunni en markaðsviðskipti og fyrirtækjaráðgjöf Fossa eru áfram staðsett á Fríkirkjuvegi 3, steinsnar frá Næpunni.Í Næpunni eru falleg fundarherbergi sem nýtast öllum hjá fyrirtækinu og fyrirtaks aðstaða til að taka á móti gestum," segir Anna Þorbjörg Jónsdóttir, framkvæmdastjóri eignastýringar hjá Fossum.

„Fasteignin er kjörin fyrir starfemina okkar. Húsið er vel þekkt, virðulegt og með ríka sögu. Næpan hefur fengið virkilega vandaðar endurbætur í samræmi við gerð og aldur hússins. Hér er gott að taka á móti gestum og góður andi í húsinu.Það eru hrein og klár forréttindi að fá að starfa í jafn fallegu húsi í hjarta miðborgarinnar.

Húsið er tilkomumikið en það er einnig mjög hlýlegt. Það er ævintýrablær yfir sjálfum turninum og fallegt útsýni yfir miðborgina. Það er gaman að starfa í jafn sögufrægu og fallegu húsi og Næpan er,“ segir Anna Þorbjörg enn fremur.

Anna Þorbjörg Jónsdóttir, framkvæmdastjóri eignastýringar hjá Fossum.

Það var Magnús Stephensen, þriðji og síðasti landshöfðingi Íslands, sem reisti Næpuna árið 1903 en Magnús Th. S. Blöndal, byggingameistari og athafnamaður í Reykjavík, teiknaði húsið sem var svo friðað af menntamálaráðherra árið 1991. Friðunin tekur til ytra borðs.

Rétt fyrir síðustu aldamót keypti Guðjón Már Guðjónsson, gjarnan kenndur við OZ, húsið og gerði það upp í persneskum stíl. Fyrir tæpu ári síðan óskuðu Fossar eftir því að gera breytingar á Skálholtsstíg 7.

Sótt var um leyfi til að gera tvennar nýjar dyr í kjallara til norðurs en loka einum dyrum á núverandi stigahúsi, síkka glugga í kjallara til norðurs og múra upp í glugga kjallara að Þingholtsstræti.

Þar að auki óskaði Fossar eftir því að gera svalir í horni við stigahús á annarri hæð til norðurs og gera hurð í gluggastæði, reisa skyggni yfir nýjum kjallarainngangi og breyta innra skipulagi þannig að geymsluloft verði tekið niður og íbúð á annarri hæð verði skrifstofa í húsi á annarri hæð.