Ófærufoss er tilkomumikill tvískiptur foss í Eldgjá að Fjallabaki. Hann var enn myndarlegri fyrir 1993 þegar risavaxin steinbrú yfir neðri fossinn hrundi í vorleysingum. Margir sakna steinbogans því þannig prýddi Ófærufoss ófáar auglýsingar sem skipuðu honum í hóp frægustu fossa landsins. En það var Hrafn Gunnlaugsson sem gerði Ófærufoss ódauðlegan í kvikmynd sinni Hrafninn flýgur frá 1984, en þar ríða víkingar á hestum yfir brothættan bogann, grunlausir um að níu árum síðar yrði hann hruninn.

Steinboginn á Ófærufossi var einkar snotur. Myndin er tekin 1984.
Mynd/Guðbjartur Kristófersson

Umhverfið í nágrenni Ófærufoss er ekki síður spennandi en fossinn sjálfur sem er staðsettur um miðja Eldgjá, 60 km langa gossprungu sem teygir sig frá Mýrdalsjökli að Vatnajökli. Norður af fossinum ber mest á Gjátindi (943 m) sem er frábært útsýnisfjall en af tindinum sést vel til Lakagíga, Mýrdalsjökuls og Sveinstinds við Langasjó. Eldgjá bíður síðan upp á litaveislu þar sem rauðleit og svört öskulög stinga skemmtilega í stúf við iðagrænan mosa og blátært vatnið í Nyrðri Ófæru, ánni sem fossinn dregur nafn sitt af. Eldgjá er engin smásmíði en við Ófærufoss er hún allt að 600 m breið og 200 m djúp. Þetta er ein stærsta gossprunga á Íslandi sem varð til í stórgosi skömmu eftir landnám, nánar tiltekið 934, og er talið að gosið hafi staðið í nokkur ár. Hraunið sem kom úr Eldgjárgosinu þekur 700 ferkílómetra, eða 0,7% landsins og er sennilega eitt stærsta hraun sem runnið hefur á sögulegum tíma á jörðinni.

Eldgjá með ánni Nyrðri Ófæru. Í baksýn til vinstri er Gjátindur og síðan sést í Uxartinda í fjarska til hægri.
Mynd/ÓMB

Það er auðvelt að komast að Eldgjá og Ófærufossi af Fjallabaksleið nyrðri, annað hvort úr Landmannalaugum eða sunnan úr Hólaskjóli. Á báðum stöðum eru skálar og tjaldstæði en einnig má halda til í Skælingum eða Álftavatnakróki. Frá bílastæði í Eldgjá er aðeins 30 mínútna ganga inn að Ófærufossi en sprækt göngufólk ætti að velta fyrir sér lengri göngu alla leið úr Hólaskjóli. Gaman er að ganga upp með fossinum og áfram í vestur meðfram straumharðri Nyrðri Ófæru. Einnig mælum við með að ganga upp úr Eldgjá á Gjátind, en þangað má einnig keyra langleiðina á jeppa eftir slóða sem liggur meðfram brún Eldgjár. Á miðri leið er stúkusæti með útsýni að Ófærufossi sem jafnast á við það sem býðst fljúgandi hröfnum. Þarna voru dýrustu sætin þegar steinboginn brast fyrir aldarfjórðungi síðan, sem sannarlega var sorglegur atburður en fellur vel að örlögum foss sem kenndur er við ófærð.