Nýr innanríkis­ráðherra, Jón Gunnarsson, hyggst setja forvirkar rannsóknarheimildir fyrir lögreglu aftur á dagskrá, með frumvörpum sem lögð verða fram í janúar.

Þetta kemur fram í nýrri þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar sem birt var í gær.

Um er að ræða tvö frumvörp, annars vegar um breytingar á lögreglulögum og hins vegar lögum um meðferð sakamála. Frumvarp um breytingar á lögreglulögum fjallar um aðgerðir til að koma í veg fyrir brot, en markmið þess er að „skýra heimildir lögreglu til að grípa til ráðstafana í þágu afbrotavarna“, að því er fram kemur í þingmálaskránni.

Umræddar heimildir varði sérstaklega skipulagða brotastarfsemi, afbrot eða athafnir sem raskað geta öryggi borgara og ríkisins, netárásir og fleiri brot.

Samhliða mun ráðherra leggja til breytingar á lögum um meðferð sakamála, meðal annars um lengd gæsluvarðhalds og aðgangs að gögnum, í þágu sömu markmiða.

Forsætisráðherra lagði línurnar fyrir stjórnartíð nýrrar ríkisstjórnar sinnar í gær með stefnuræðu sinni á Alþingi ásamt framlagningu á þingmálaskrá stjórnarinnar fyrir fyrsta löggjafarþing hennar.

Þingmálaskráin hefur að geyma mörg þeirra mála sem fráfarandi ríkisstjórn sömu flokka náði ekki að ljúka á síðasta kjörtímabili, en einnig eru nokkur ný mál á dagskrá stjórnarinnar þennan fyrsta starfsvetur hennar.

Landsréttur áfram í Kópavogi

Innanríkisráðherra mun einnig flytja frumvarp um framlengingu á bráðabirgðaheimildum til rafrænnar málsmeðferðar hjá dómstólum, sem lögfestar voru vegna heimsfaraldursins.

Einnig er stefnt að því að framlengja heimild fyrir óbreytta staðsetningu Landsréttar í Kópavogi, en heimild til þeirrar staðsetningar rennur út 1. janúar næstkomandi.

Meðal mála á lista forsætisráðherra er frumvarp um rýni fjárfestinga erlendra aðila í þýðingarmiklum samfélagsinnviðum og tengdri starfsemi vegna þjóðaröryggis, en frumvarpið byggir á skýrslu stýrihóps ráðherra um efnið sem skilað var í maí á þessu ári.

Hún mun einnig mæla fyrir frumvarpi um útvíkkaðan forkaupsrétt ríkissjóðs á landi sem liggur að friðlýstum náttúruverndarsvæðum og lands sem hefur að geyma friðlýstar menningarminjar.

Auk sinna venjubundnu frumvarpa sem tengjast fjárlögum hvers árs, stefnir fjármála- og efnahagsráðherra að framlagningu frumvarps um breytingar á lögum um virðisaukaskatt.

Í þingmálaskránni segir að breytingarnar lúti meðal annars að ákvæðum um netverslun, en komið er inn á málið í fjárlagafrumvarpi og þar segir að endurskoðunin eigi að „tryggja skatttekjur ríkissjóðs og mæta þeim kröfum sem gerðar eru í viðskiptaumhverfinu á hverjum tíma.

Tæknibreytingar og þróun á sviði stafrænna viðskipta kalla meðal annars á endurskoðun á innheimtu virðisaukaskatts vegna viðskipta yfir landamæri.“

Jón og Áslaug þegar Jóni
fréttablaðið/ernir

Þá er fjármálaráðherra einnig með í vinnslu ný heildarlög um fjárfestingar og fasteignaumsýslu ríkisins og stefnir að framlagningu slíks frumvarps í mars.

Frumvarp um afnám refsinga fyrir vörslu neysluskammta ávana- og fíkniefna er enn á sínum stað hjá heilbrigðisráðherra og samkvæmt þingmálaskránni hyggst hann leggja það fram í febrúar, þó með einhverjum breytingum. Einnig er á dagskrá heilbrigðisráðherra frumvarp til laga um dýralyf, en um er að ræða innleiðingu reglugerða sem mynda heildarlöggjöf Evrópusambandsins um efnið.

Þjóðgarður og fjölmiðlamál úti

Félags- og vinnumálaráðherra mun leggja fram frumvarp um sorgarleyfi, sem gerir foreldrum sem missa barn sitt kleift að vera í sorgarleyfi í allt að sex mánuði, með greiðslum frá hinu opinbera, og frumvarp til starfskjaralaga, sem sporna eiga gegn félagslegum undirboðum og brotastarfsemi á vinnumarkaði.

Félagsmálaráðherra mun einnig leggja fram frumvarp sem kveður á um tilfærslu á sjálfstæðum rétti foreldris til fæðingarorlofs til hins foreldrisins, þegar annað foreldrið sætir nálgunarbanni gagnvart barni sínu eða hinu foreldrinu, brottvísun af heimili eða afplánun refsingar fyrir slík brot. Þá er á lista félagsmálaráðherra frumvarp til heildarlaga um réttarstöðu fólks sem öryggisráðstafanir og öryggisþjónusta nær til, með tilliti til persónufrelsis manna og friðhelgi.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra mun leggja fram frumvarp um opinber innkaup á vistvænum ökutækjum, en um er að ræða breytingu á lögum um loftslagsmál. Þá verður þingsályktunartillaga um verndar- og orkunýtingaráætlun (þriðji áfangi) lögð fram í mars.

Eins og við mátti búast er hins vegar ekkert frumvarp um hálendisþjóðgarð í frumvarpi nýs umhverfis­ráðherra og þá hefur menningarmálaráðherra ákveðið að gefa frí frá fjölmiðlamálinu í bili, en eins og kunnugt er var málið leyst á síðasta kjörtímabili með tímabundnum ákvæðum um styrki til einkarekinna fjölmiðla.

Leigubílarnir enn á dagskrá

Nýr innviðaráðherra stefnir að endurflutningi nokkurra mála sem ekki náðist á klára á síðasta þingi, þar á meðal um leigubifreiðaakstur, loftferðir, áhafnir skipa og fleiri mál.

Fréttablaðið greindi frá því í síðasta mánuði að Eftirlitsstofnun EFTA hefur sent íslenskum stjórnvöldum rökstutt álit vegna brota á EES-samningnum með takmörkunum á úthlutun leigubílaleyfa.

Samgönguráðherra sagði álitið setja leigubílafrumvarpið í forgang á nýju þingi, sem gæti opnað fyrir farveitur á Íslandi.

Innviðaráðherra stefnir einnig að framlagningu frumvarps um íbúa­kosningar á sveitarstjórnarstigi, breytingar á hafnalögum sem fela meðal annars í sér gjaldtöku vegna fiskeldis og frumvarp um uppbyggingu nýrrar mannvirkjaskrár, sem á að innihalda gögn um mannvirki á Íslandi og byggingarstig þeirra.

Ekki eru mörg mál á lista mennta- og barnamálaráðherra, en víða í þingmálaskránni er þó að finna frumvörp sem eru hluti af hans stóra verkefni um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Nýr vísinda-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra ætlar að koma á laggirnar Menntarannsóknasjóði með áherslu á rannsóknir á skóla- og frístundastarfi. Sjóðurinn mun hafa til umráða 80 milljónir og mun úthluta 60 milljónum árlega.

Fáum ferskt kjöt frá Bretlandi

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mun meðal annars endurflytja mál um styrkingu eftirlits með fiskveiðum, en frumvarpið var samið í kjölfar skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu.

Þá mun utanríkisráðherra mæla fyrir sérstakri löggjöf í tengslum við fríverslunarsamning við Bretland.

Er þar meðal annars kveðið á um heimild til innflutnings á fersku kjöti og sambærilegum vörum frá Bretlandi.

Sem fyrr segir er töluverður fjöldi mála í þingmálaskrá nýrrar ríkisstjórnar þekktur úr þingmálaskrám síðasta kjörtímabils, en heimsfaraldurinn setti töluvert strik í reikning ríkisstjórnarinnar, auk þess sem alls ekki reyndist samstaða um öll mál.

Þó eru einnig mál sem dagaði uppi á síðasta kjörtímabili, en er þó hvergi að sjá í þessari fyrstu þingmálaskrá nýrrar ríkisstjórnar.

Má þar nefna frumvarp um hálendisþjóðgarð, frumvarp um rekstrarstyrki til einkarekinna fjölmiðla og frumvarp fyrrverandi dómsmálaráðherra um mannanöfn, svo fátt eitt sé nefnt