„Þetta er svolítill skellur en meirihluti fjárlaganefndar hyggst skera framlög til Rannsóknasjóðs niður um tæpar 150 milljónir. Við fréttum þetta bara í síðustu viku. Rannsóknasjóður er grunnvísindasjóður og í raun stoðin undir öll grunnvísindi á Íslandi. Hann er samt mjög lítill og það er hörð samkeppni um úthlutanir,“ segir Erna Magnúsdóttir, forseti Vísindafélags Íslendinga.

Í áliti meirihluta fjárlaganefndar við 2. umræðu um fjárlagafrumvarpið segir að draga eigi úr útgjaldavexti til vísinda og samkeppnissjóða í rannsóknum um tæpar 147 milljónir.

„Þetta skýtur svo skökku við en þarna verður um 17 prósenta niðurskurður á nýveitingum styrkja. Það eru um tíu verkefnastyrkir. Ég held að þingmenn séu ekki meðvitaðir um það hvað þetta er stór breyting og hefur mikil áhrif.“

Hún segir Vísindafélagið og þá vísindamenn sem hún hafi rætt við forviða. „Við hefðum frekar búist við að það yrði bætt við í sjóðina.“

Hafin er undirskriftasöfnun meðal vísindamanna til að mótmæla þessum áformum og þá hyggjast þeir mæta á þingpalla á morgun.

Einar Stefánsson, prófessor við læknadeild Háskólans og yfirlæknir á augndeild Landspítala, tekur undir þetta og segir að verið sé að taka lítið skref til baka. „Þegar kemur að fjármögnun háskóla og rannsókna erum við langt frá þeim þjóðum sem við viljum miða okkur við.“

Hann bendir á að bandarísk stjórnvöld hafi gefið það út að 75 prósent hagvaxtar landsins frá lokum seinni heimsstyrjaldar komi í gegnum rannsóknir og þróun. „Bandaríkjamenn hafa verið fremstir en eiginlega allar aðrar þjóðir eru að reyna fara sömu leið og byggja sína framtíð á rannsóknum og nýsköpun.“