Mót­mælendur Black Lives Matter hreyfingarinnar í Bristol rifu í dag niður styttu af þekktum þræla­sala, sem var uppi á 17. öld, Edward Col­ston, og fleygðu henni í höfnina.

Mót­mælendurnir tóku sig til og komu reipi um styttuna í dag sem þeir notuðu svo til að toga hana niður af stalli í mið­bænum. Styttunni var svo velt niður götuna og að höfninni þar sem henni var fleygt í sjóinn. Utan­ríkis­ráð­herra Bret­lands, Priti Patel, hefur hvatt lög­reglu til að skerast í leikinn.

„Mér finnst þetta ger­sam­lega sví­virði­legt og þetta sýnir upp­lausn meðal mót­mælenda sem er frekar til þess fallin að beina at­hyglinni frá mál­efninu sem fólkið er að mót­mæla,“ sagði hún í sam­tali við breska fjöl­miðla.

Lög­reglu­yfir­völd hafa stað­fest að verið sé að rann­saka málið sem skemmdar­verk. Borgar­stjóri Bristol, Marvin Rees, sagði þá að hann gerði sér grein fyrir því að fólk hefði mis­munandi skoðanir á gjörningnum en að mikil­vægt væri að hlusta vel á þá sem finnst hún lítils­virða mann­réttindi.

Fréttablaðið/Getty

Flutti yfir 100 þúsund þræla

Þegar höfðu safnast yfir 11 þúsund undir­skriftir til að láta fjar­lægja styttuna, sem var sett upp árið 1895, en hún er talin ó­smekk­leg á­minning um þann þátt sem borgin Bristol átti í þræla­sölu­markaðinum á ný­lendu­tímanum.

Á undir­skriftalistanum segir meðal annars: „Á meðan mikil­vægt er að gleyma ekki sögunni á það fólk, sem hagnaðist á þræl­dómi annarra ein­stak­linga, ekki skilið að eiga af sér styttu.“

Fyrir­tæki Col­stons þessa, sem styttan er af, flutti yfir 100 þúsund þræla frá Vestur-Afríku til Karíba­eyja og Banda­ríkjanna á árunum 1672 til 1689. Þrælarnir; menn, konur og börn, voru brenni­merkt á bringuna með upp­hafs­stöfum fyrir­tækisins „RAC“. Ill með­ferð og vondar að­stæður á skipum fyrir­tækisins urðu þá fleiri en 20 þúsund að bana.

Þegar þræll lést á skipum Col­stons var líki hans fleygt frá borði. Því var það heldur tákn­ræn at­höfn í dag er mót­mælendur fleygðu líkneski Col­stons sjálfs í höfnina.