Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sinnti 111 sjúkraflutningum síðasta sólarhringinn. Þar af voru 22 forgangsflutningar og tíu vegna Covid-19. Slökkvibílar voru kallaðir út tvisvar á sama tímabili.

Fram kemur á Facebook-síðu slökkviliðsins að annað útkallið hafi verið vegna elds í rusli á víðavangi og hitt vegna bíls sem kviknaði í á bílastæði við Smáralind. Að sögn slökkviliðs voru báðir eldarnir slökktir fljótt og örugglega.

Greint var frá því í gær að Covid-19 tengdum sjúkraflutningum hafi fækkað að undanförnu hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, samhliða fækkun nýgreindra smita í samfélaginu. Telur slökkviliðið það til marks um að afrakstur sóttvarnaaðgerða sé að skila sér.