Hvalur hf. fór ekki eftir reglum hvað varðar langreyðarveiðar fyrirtækisins árin 2014, 2015 og 2018 og eftirlit Fiskistofu var ekki eins og það átti að vera. Starfsemi fyrirtækisins var ekki í samræmi við veiðileyfi þess.

Í leyfi Hvals hf. til veiða á langreyði, sem gefið var út um miðjan maímánuð árið 2014, er meðal annars gerð sú krafa til fyrirtækisins að skipstjóri hvalveiðiskips haldi sérstaka dagbók yfir veiðarnar. Veiðileyfið var gefið út vegna veiða árin 2014-2018 og þessi krafa frá stjórnvöldum því allan tímann í gildi.

Það sem markvert er við veiðileyfi Hvals hf. er að þar er tekið fram að að dagbókum skipstjóranna eða afriti þeirra skuli skilað til Fiskistofu í lok hverrar vertíðar. Fiskistofu var hins vegar ekki kunnugt um það fyrr en að lögmaður náttúru- og dýraverndarsamtakanna Jarðvina óskaði eftir þeim gögnum frá stofnuninni.

Óskað var eftir því frá Fiskistofu að fá afrit af þessum dagbókum skipstjóra Hvals hf. Þær hefðu átt að vera komnar til Fiskistofu fyrir árin 2014, 2015 og 2018 en á þeim tíma hefur fyrirtækið veitt samanlagt 436 dýr. Dagbækurnar gætu þannig geymt upplýsingar um veiðitilhögun sem er mikilvægt innlegg í eftirlit með veiðunum fyrir Fiskistofu.

Þær er hins vegar ekki að finna hjá stofnuninni og ljóst að Hvalur hf. hefur ekki sinnt skyldu sinni um að senda dagbækurnar til stofnunarinnar. Að sama skapi hefur Fiskistofa verið sofandi í eftirlitshlutverki sínu. „Við afgreiðslu beiðninnar varð ljóst að þessi breyting hafði verið gerð á leyfinu og kveðið á um skil dagbókar eða afrits dagbókar til Fiskistofu,“ segir í svari Fiskistofu. „Fiskistofa hefur hafist handa við að kalla eftir dagbókinni eða afriti hennar eins og kveðið er á um í leyfinu.“

Því er ljóst að dagbækurnar hafa ekki verið hluti af þeim gögnum sem sjávarútvegsráðherra hefur getað aflað sér við ákvarðanatöku sína um að veita fyrirtækinu leyfi til ársins 2023 til áframhaldandi veiða á langreyði.

Í veiðileyfinu er einnig getið þess að ef fyrirtæki brjóti gegn ákvæðum leyfisins sé hægt að svipta fyrirtækið leyfinu. Ljóst er að Hvalur fór ekki eftir reglum hvað þetta varðaði árin 2014-2018 en fékk samt sem áður endurnýjun á leyfi sínu frá ráðherra sjávarútvegsmála.

Fréttablaðið hefur áður sagt frá því að hvalveiðifyrirtækið fór aldrei eftir reglugerð um að hvalskurður ætti að fara fram innandyra. Kristján Loftsson, eigandi Hvals hf., pantaði breytingu á reglugerðinni og fékk það fram að þessum kvöðum yrði aflétt.