Ákvörðun um breyttan skimunaraldur vegna brjóstakrabbameina hjá konum var tekin án tillits til niðurstöðu sérstaks fagráðs um brjóstakrabbamein sem birt var í skýrslu október í fyrra. Fagráðið taldi að fara ætti að ráðleggingum Evrópusambandsins og hefja skimun við 45 ára aldur og fram til 74 ára. Skimunarráð fyrir krabbameinum á Íslandi taldi hins vegar ekki næg rök fyrir því. Áður, eða í febrúar 2019 hafði skimunarráð þó talið Evrópureglurnar fýsilegar.

Ísland og Svíþjóð hafa verið einu Norðurlandaþjóðirnar sem hefja skimun við 40 ára aldur. Hinar þjóðirnar hafa miðað við fimmtíu ár.

Lengja skimun til eldri kvenna

Eftir niðurstöðu skimunarráðs í haust lagði Landlæknir til við heilbrigðisráðherra að færa aldursmörkin fyrir skimun til 50 ára og lengja fram til 74 ára, úr 69 ára aldursmarkinu sem hefur gilt hingað til.

Skimunarráð bendir á í skýrslunni frá október í fyrra, að skimanir leiði til ofgreininga sem sé viðurkenndur vandi á alþjóðavísu. „Átt er við greiningar á meinum í almennri skimun sem aldrei hefðu leitt til sjúkdóma eða ótímabærs dauða“, segir þar. Einnig er fjallað um ofmeðhöndlun í kjölfar hinna svonefndu ofgreininga þegar fólk gengst undir óþarfa meðferð sem getur skaðað heilsu þess.

Gagnrýni

Breytingarnar hafa sætt mikilli gagnrýni frá ýmsum grasrótarhópum kvenna sem greinst hafa með krabbamein, svo sem Krafti, Brjóstaheill og einnig Krabbameinsfélaginu. Á Facebook síðu kvenna sem deila reynslu af brjóstakrabba eru 500 konur skráðar og tugir þeirra deila reynslu sinni af krabbameini fyrir fimmtugt. Þá eru rúmlega 70 yngri konur en fertugar sem fengið hafa krabbamein með annan hóp á Facebook. Þar er m.a. sagt að konur upplifi skelfingu og mikla óvissu um að þeim verði tryggð skimun telji þær sig þurfa hana.

Að meðaltali greinist 31 kona á milli 40-50 ára á Íslandi með krabbamein í brjóstum. Á tíu árum eru það þá 310 konur sem greinast á þessu aldursbili.

Á vef Krabbameinsfélagsins segir: „Landlæknir hafði lagt til að farið yrði eftir evrópskum leiðbeiningum við skipulag skimana fyrir krabbameinum – en þar er mælt með skimun 45-49 ára kvenna. Fagráð um brjóstakrabbamein mælti einnig með því að hefja skimun við 45 ára aldur. Með nýju fyrirkomulagi víkja landlæknir og skimunarráð frá evrópsku leiðbeiningunum og áliti fagráðs um brjóstakrabbamein án þess að það sé rökstutt sérstaklega.

Skimunarráð og fagráð

Sjö skipa skimunarráð og eru þar m.a. sérfræðingar í læknis- og meinafræðum, heilsuhagfræði, siðfræði, lýðheilsuvísindum og líftölfræði.

Þrír skipa fagráðið, prófessor í veirufræði, sérfræðingur í krabbameinslækningum kvenna og lífeindafræðingur.