Björgunarsveitin á Dalvík var kölluð út um tvö leytið í dag eftir að tilkynning barst Neyðarlínu um slasaða skíðakonu innarlega í Karlsárdal en þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörg um málið.
Konan reyndist slösuð á fæti eftir að hún hafði dottið á skíðum í dalnum, sem er norðan við Dalvík, en björgunarveitarmenn fóru á vélsleðum á vettvang og hlúðu þar að henni.
Konan var flutt á vélsleða að sjúkrabíl sem var á bílastæði í um fjögurra kílómetra fjarlægð frá staðnum sem hún slasaðist. Konan hefur nú verið flutt til skoðunar á sjúkrastofnun.