Epic Games sem framleiðir tölvuleikinn Fortnite samþykkti í gær að greiða 520 milljóna dala sekt, eða um 75 milljarða íslenskra króna, fyrir brot á reglum bandaríska samkeppniseftirlitsins (e. US Federal Trade Comission). Af því fara 245 milljónir í að endurgreiða einstaklingum sem voru hvattir til að fjárfesta í hlutum sem þeir ætluðu sér ekki að gera að sögn samkeppniseftirlitsins.

Fortnite hefur verið einn vinsælasti fjölspilunarleikur heims frá því að hann kom fyrst út árið 2017. Það kostar ekkert að koma höndum yfir leikinn né að spila gegn andstæðingum sínum en rekstrarmódel Epic Games gengur út á að leikmenn kaupi viðbætur, líkt og dansa, búninga eða vopn með gjaldeyri leiksins.

Slík kaup kosta yfirleitt ekki mikinn pening, en nýjar viðbætur daglega hafa kostað fjölmarga foreldra skildinginn.

Að sögn bandaríska samkeppniseftirlitsins gerðist Epic Games brotlegt með því að komast yfir persónuupplýsingar leikmanna.

„Epic Games notaði stillingar og brögð til að heilla notendur Fortnite, þar á meðal unglinga og börn.“