For­svars­menn Neyðar­línunnar hafa verið boðaðir á fund mann­réttinda-, ný­sköpunar- og lýð­ræðis­ráðs Reykja­víkur­borgar í dag til að fara yfir og svara spurningum um at­vik sem Frétta­blaðið greindi frá fyrr í mánuðinum þegar Neyðar­línan skellti í­trekað á konur sem voru að hringja eftir sjúkra­bíl. Reykja­víkur­borg á tæp 20 prósent í Neyðar­línunni.

„Okkur finnst þetta at­vik al­var­legt og ég vil at­huga hvort þetta voru mis­tök, jafn­vel ein­stakt dæmi eða raunveruleg kerfis­bundnum brota­löm. Þess vegna höfum við boðið for­svars­mönnum Neyðar­línunnar á fund til að fara yfir verk­ferla við út­köll og svara spurningum,“ segir Dóra Björt Guð­jóns­dóttir, borgar­full­trúi Pírata og for­maður ráðsins, í sam­tali við Frétta­blaðið.

At­vikið varð laugar­daginn 16. maí um klukkan hálf tólf að kvöldi til. Hópur vin­kvenna gekk þá niður Lauga­veginn og fram á tvær ungar konur sem höfðu hnigið niður í jörðina og voru með­vitundar­lausar og froðu­fellandi. Tveir vinir þeirra voru með þeim og höfðu þeir þegar hringt í Neyðar­línuna. Vinirnir og stúlkurnar voru öll af er­lendu bergi brotin og sagði ein vin­kvennanna sem gekk fram á þær að hún hefði á­kveðið að hringja aftur í Neyðar­línuna af ótta við að skila­boðin hefðu ekki verið nógu skýr, enda talaði fólkið nokkuð bjagaða ís­lensku.

„Þessi í símanum segir mér að það sé lög­regla á leiðinni. Ég segi honum þá að þær þurfi ekki á lög­­reglunni að halda, þær þurfi læknis­að­­stoð. Þið verðið að senda sjúkra­bíl eins og skot, ég held þær séu að fara. Þá var bara skellt á mig,“ segir hún. „Svo hringir vin­­kona mín líka og það var líka bara skellt á hana,“ sagði hún í sam­tali við Frétta­blaðið degi eftir at­vikið.

Eðlilegt að rannsaka málið

Dóra Björt segir fulla á­stæðu til að kanna þetta mál eftir um­fjöllun Frétta­blaðsins en Tómas Gísla­son, að­stoðar­fram­kvæmda­stjóri Neyðar­línunnar, sagði í sam­tali við frétta­stofu að sá sem hefði svarað sím­tölunum hafi verið full­stuttur í spuna og að hann ætlaði að brýna kurteisi fyrir starfs­fólki Neyðar­línunnar. Tómas sagði að starfsmaðurinn hefði einnig mátt vera skýrari við konurnar og láta þær vita að sjúkrabíll væri á leiðinni.

Dóra Björt Guð­jóns­dóttir, borgar­full­trúi Pírata og for­maður mann­réttinda-, ný­sköpunar- og lýð­ræðis­ráðs Reykja­víkur­borgar.

„Mér finnst sann­gjarnt að spyrja spurninga og fara yfir þetta mál sér­stak­lega í ljósi þess að eftir þetta at­vik hef ég heyrt af mörgum fleiri at­vikum þar sem ein­staklingar upp­lifa svona við­horf,“ segir Dóra og í­trekar að með því að kalla Neyðar­línuna á fundinn til að svara spurningum sé ekki verið að á­saka neinn.

„Ég tel það vera eðli­lega stjórn­sýslu að bregðast við þegar svona ó­á­nægju­raddir heyrast og virðast eiga við rök að styðjast,“ heldur hún á­fram. „Við viljum öll geta treyst Neyðar­línunni og opin­berar stofnanir verða að vera þannig að öll geti treyst þeim."