„Ég bjóst við dræmri aðsókn um páskana. Það var metsnjór í Bláfjöllum og metferðalög erlendis,“ segir Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður Hlíðarfjalls á Akureyri, um það hversu fámennt var í skíðaparadísinni fyrir og um páskana.

Hafa fastagestir sem renndu sér í brekkunum nefnt í samtölum við Fréttablaðið að sjaldan hafi verið eins rólegt.

Magnús Árnason, framkvæmdastjóri skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins, segir af og frá að aðstæður í Bláfjöllum hafi laðað að skíðafólk sem annars hefði farið norður í fríinu.

„Ég fékk ömurlega páska,“ segir Magnús.

Hann segir að í raun hafi aðeins verið hægt að skíða almennilega einn dag um páskana í Bláfjöllum vegna roks og rigningar.

Þá hafi Skálafell að mestu verið úr leik þar sem rof hafi komið í brautir í leiðindaveðri.

Forstöðumennirnir eru sammála um að veturinn hafi verið sérlega erfiður fyrir umsjónarmenn skíðasvæða, norðan sem sunnan heiða. Í Bláfjöllum féll reyndar óvenju mikill snjór fyrir upphaf vertíðar.

Það vakti mikla bjartsýni um góðan skíðavetur að sögn Magnúsar en vindar og rigning léku skíðasvæðið grátt eftir að snjórinn hrúgaðist upp. Lægðagangurinn leiddi til þess að ítrekað þurfti að loka skíðasvæðinu fyrir gestum.

Að sögn Magnúsar hefur aðeins verið hægt að hafa opið í um 35 prósent daga frá upphafi vertíðar en þegar vel árar er nýtingin um 55 prósent. Því liggur fyrir að rekstrar- og mannfjöldalega var vertíð þessara tveggja stærstu skíðasvæða landsins döpur en tölfræði um aðsókn liggur ekki enn fyrir.

„Fólk vissi að það væri vorfæri hjá okkur um páskana og við vissum að það yrði rólegt. Rekstrarlega hefði ég viljað sjá miklu fleiri gesti en við vorum á jörðinni í væntingum,“ segir Brynjar Helgi. „Við höfum barist við heilt net af lægðum í vetur,“ bætir hann við.

Eigi að síður er enn von um nokkra góða daga til viðbótar áður en allt bráðnar og skíðasvæðin loka. Í gær var opið í Bláfjöllum, mjög góðar aðstæður og fjöldi fólks á skíðum. Báðir forstöðumennirnir segjast horfa björtum augum fram á við.

Í sumar hefst gríðarleg uppbygging á skíðasvæðum höfuðborgarsvæðisins sem gjörbreyta mun aðstöðunni að sögn Magnúsar.

Fyrir norðan eru Andrésar andar leikarnir fram undan sem laða munu að þúsundir gesta.