Kristín Jónsdóttir Njarðvík, forstöðumaður Endurmenntunar Háskóla Íslands til 23 ára, sagði upp í skyndi í lok júní vegna ágreinings við mannauðsskrifstofu háskólans um leiðir til að rannsaka meinta óánægju starfsfólks stofnunarinnar.

Kristín segir Endurmenntun HÍ hafa lent í rekstrarvanda í tengslum við Covid og að hún hafi verið beðin að skoða hvernig lækka mætti launakostnað.

„Það voru teknar ákvarðanir varðandi starfslok og stjórnin studdi þær ákvarðanir,“ segir Kristín um aðdraganda málsins sem komið hafi upp eftir sparnaðaraðgerðir fyrr á árinu.

„Rannsóknir sýna að alltaf þegar lykilstarfsmanni er sagt upp þá myndast einhver óánægja,“ útskýrir Kristín sem kveður þetta einmitt hafa gerst. Óánægjuraddirnar tilheyri hins vegar aðeins litlum minnihluta starfsmanna Endurmenntunar.

„Það er alltaf óvissa þegar fólki er sagt upp. Ég ákvað í samráði við stjórn að fara ákveðna leið í því að grennslast fyrir um þetta enn frekar. Fulltrúar úr stjórnsýslu innan háskólans höfðu áhuga á að fara aðra leið,“ rekur Kristín sem kveður formann stjórnar Endurmenntunar hafa bakkað hana upp gagnvart stjórnsýslunni – sem í þessu tilfelli er sem sagt mannauðsskrifstofa HÍ.

„Mitt erindisbréf gengur út á það að ég stjórna og hef meðal annars mannauðsstjórnun á minni könnu. Þarna var sem sagt mismunandi áhersla á leiðir. Ég og stjórnin stóðum saman og ég ákvað bara að standa og falla með því og sagði starfi mínu lausu,“ segir Kristín sem nokkrum dögum eftir uppsögn sína var boðin framkvæmdastjórastaða hjá Starfsþróunarsetri háskólamanna og hefur hún störf þar 23. ágúst.

Aðspurð hafnar Kristín því að vandinn eigi sér rætur mörg ár aftur í tímann. Hún segir slík mál fyrst hafa komið upp í tengslum við fyrrnefndar sparnaðaraðgerðir. „Enda hafa starfsmannakannanir í árafjöld leitt í ljós mikla starfsánægju og meiri en gerist og gengur,“ segir hún.

Róbert H. Haraldsson prófessor, sem er nýr formaður stjórnar Endurmenntunar HÍ, segir ekki hægt að veita Fréttablaðinu upplýsingar sem óskað var eftir um málavexti sem hann kveður varða „innri málefni“ Endurmenntunar.

„En rétt að taka fram að ef athugasemdir eða kvartanir berast varðandi einstakar starfseiningar Háskóla Íslands, eru þær teknar til skoðunar hjá mannauðssviði og eftir atvikum gripið til viðeigandi ráðstafana meðal annars í samræmi við þau lög og reglur sem um starfsemina gilda á þessu sviði,“ segir Róbert.

Að sögn Róberts mun Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar Rannsóknasetra Háskóla Íslands og sérfræðingur á skrifstofu rektors, gegna starfi forstöðumanns Endurmenntunar þar til nýr forstöðumaður verði ráðinn. Stefnt sé að því að starf forstöðumanns verði auglýst laust til umsóknar síðar í ágústmánuði.