Félag sjúkraþjálfara mótmælir harðlega framkomnum ávirðingum af hálfu forstjóra Sjúkratrygginga Íslands í kvöldfréttum RÚV í gær. Þetta kemur fram í tilkynningu sem félagið sendi frá sér á Facebook í dag.

Í umræddu viðtali sagði María Heimisdóttir, forstjóri SÍ, að sjúkraþjálfarar beittu sjúklingum fyrir sig í deilunni.

„Ég treysti því að þetta góða fagfólk sjái það að það er ekkert vit í öðru en að nýta rafræn samskipti þannig að þetta hafi ekki áhrif á sjúklinga,“ sagði María Heimisdóttir.

„Félag sjúkraþjálfara harmar að forstjóri SÍ fari niður á það plan að fara fram með rangfærslum og hótunum gagnvart heilbrigðisstétt.“

Þar sem sjúkraþjálfara vinna ekki samkvæmt samning við SÍ lengur, sem rann út 31. janúar síðastliðinn og var framlengdur til 31. maí, geta þeir ekki sent rafræna reikninga. Sjúklingar verða því að fá endurgreiðslu greidda hjá Sjúkratryggingum, sem hefur reynst erfitt fyrir marga sjúklinga.

Fréttablaðið hefur fengið ábendingar um sjúklinga sem fengu ekki endurgreiðslu, sem þau eiga rétt á, og dæmi um að starfsmenn SÍ hafi sagt sjúklingum að sjúkraþjálfarar neiti að senda reikninga rafrænt. Sjúkraþjálfar telja sig starfa án samnings og geta því ekki sent rafræna reikninga samkvæmt þeirri túlkun nema Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifi undir nýja reglugerð þar um eins og hefur verið gert í máli SÍ og lækna.

Áður höfðu Sjúkratryggingar framlengt samning tvisvar án þess að eiga samtal við sjúkraþjálfara, og það án hækkana samkvæmt vísitölum. Sjúkratryggingar gáfu upphaflega sjúkraþjálfurum sex vikna frest án fyrirvara til að kynna sér útboð á sínum tíma, sem hefur aldrei áður verið gert á Íslandi.

María sagði grun um ólögmætt samráð og tilkynnti hún því sjúkraþjálfara til Samkeppniseftirlitsins. Félag sjúkraþjálfara segist ekki hafa gefið út neina gjaldskrá til notkunar fyrir félagsmenn sína.

„Sjúkraþjálfarar lýstu því yfir strax í upphafi að þeir væru tilbúnir til að vera í rafrænum samskiptum við SÍ varðandi endurgreiðsluhluta skjólstæðings. Til að slíkt sé möguleiki utan samnings þarf SÍ að óska eftir við ráðherra að setja reglugerð um slíkt, en það hefur ekki verið gert. Það er því á ábyrgð SÍ og ráðherra að rafræn samskipti eru ekki möguleg,“ segir í tilkynningu félagsins.

„Félag sjúkraþjálfara harmar að forstjóri SÍ fari niður á það plan að fara fram með rangfærslum og hótunum gagnvart heilbrigðisstétt, sem er í fullum rétti til að verja sitt starfsumhverfi með því að starfa ekki skv. löngu útrunnum samningi við stofnunina.“